Viðskipti innlent

Ráðinn til KEA

Bjarni Hafþór Helgason hefur verið ráðinn fjárfestingastjóri Kaupfélags Eyfirðinga og mun hann hefja störf hjá félaginu í byrjun nýs árs. Fjárfestingastjóri er nýtt starf hjá Kaupfélagi Eyfirðinga en í því felst framkvæmdastjórn tveggja dótturfélaga KEA, fjárfestingafélaganna Hildings og Upphafs, en stofnfé þeirra er samtals um 1,7 milljarðar króna.

"Þetta er afar spennandi verkefni og mér fannst ekki hægt að hafna boði framkvæmdastjóra KEA um að takast það á hendur. Starfið mun byggja á nánu samstarfi við framkvæmdastjóra KEA og miðað við reynslu af okkar samstarfi á ég ekki von á öðru en að það verði mjög gott og vonandi farsælt líka fyrir félögin og KEA í heild sinni," segir Bjarni Hafþór.

Undanfarin sex ár hefur Bjarni Hafþór starfað sem skrifstofustjóri hjá Lífeyrissjóði Norðurlands en hann er viðskiptafræðingur að mennt og útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 1983.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×