Viðskipti innlent

Hlutabréfaviðskipti aldrei meiri

Fjöldi viðskipta með hlutabréf í Kauphöll Íslands hefur aldrei verið meiri en á liðnu ári. Viðskiptin voru 86.151 talsins en það er um 33% aukning frá árinu 2003 þegar fjöldi viðskipta var 64.931. Frá þesu greinir í hálffimm fréttum KB banka. Innanþingsviðskipti hafa aldrei verið fleiri en á árinu 2004 en þeim fjölgaði um tæplega 64% milli ára, úr 43.841 á árinu 2003 í 71.870 árið 2004. Innanþingsviðskipti nema því um 83,4% af heildarfjölda viðskipta með hlutabréf í Kauphöll Íslands. Utanþingsviðskiptum fækkaði hins vegar um 32% á milli ára, voru 14.281 á árinu 2004 en 21.090 á árinu 2003. Mestur fjöldi viðskipta var með hlutabréf KB banka eða 13.344 viðskipti. Þar á eftir kemur Landsbankinn með 10.427 viðskipti og Íslandsbanki með 9.670 viðskipti. Að Straumi meðtöldum nemur samanlagður fjöldi viðskipta með hlutabréf bankanna 38.072 eða rúmlega 44% af heildarfjölda viðskipta í Kauphöllinni á árinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×