Viðskipti innlent

Flogið til Hahn í sumar

Flugfélagið Iceland Express ætlar að hefja áætlunarflug á milli Íslands og Þýskalands í vor og hefur þegar verið ákveðið að fljúga til Frankfurt/Hahn-flugvallarins sem er miðja vegu milli Frankfurt og Lúxemborgar. Að sögn Almars Hilmarssonar, framkvæmdastjóra félagsins, liggur völlurinn landfræðilega vel fyrir ferðalög Íslendinga erlendis sem og ferðalög Þjóðverja til Íslands. Aðspurður um hvort hægt sé að taka tengiflug þaðan segir Almar að Ryanair noti völlinn sem eina af fjórum miðstöðvum sínum í Evrópu og verði með sex vélar staðsettar þar. Almar segir að flogið verði þrisvar í viku milli Keflavíkur og Hahn. Stefnt sé að heilsársflugi en ætlunin sé að meta árangurinn þegar á líði og þá verði tekin ákvörðun um hvort flogið verði næsta vetur. Viðbúið sé að flugferðum verði þó fækkað. Flogið verður í Boeing 737-300 flugvélum sem eru sams konar vélar og félagið notar í dag. Aðspurður hvort flug til Kaupmannahafnar og Lundúna verði með sama sniði þráttt fyrir viðbótina segir Almar að félagið hyggist fjölga ferðum þangað í sumar, flogið verði tvisvar á dag til borganna tveggja alla daga nema þriðjudaga, miðvikudaga og laugardaga.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×