Viðskipti innlent

Áframhaldandi slagur í Keri

Slagur Ólafs Ólafssonar, aðaleiganda Kers, við sameigendur sína í félaginu heldur áfram. Stjórn Festingar sem á og rekur meðal annars fasteignir félaga í eigu Kers ákvað á fundi sínum að auka hlutafé og var nýja hlutaféð selt einkahlutafélagi í eigu framkvæmdastjóra félagsins. Sjóvík sem áður var í samstarfi við Ólaf í Keri átti meirihluta í þriggja manna stjórn Festingar sem gat ráðið þessari ákvörðun, en að óbreyttu hefðu þeir fallið úr stjórn Festingar á næsta aðalfundi, þar sem Ólafur réð meirihluta eignarhalds félagsins fyrir hlutafjáraukninguna. Hlutafjáraukningin var gegn vilja meirihlutaeigenda í Keri sem nú eru í minnihluta í félagi sem á og rekur fasteignir þar sem rekstur félaga eins og Samskipa og Olíufélagsins fer fram. Ólafur og fylgismenn vildu fresta ákvörðun um hlutafjárhækkunina til hluthafafundar félagsins og hafa krafist lögbanns á gjörninginn. " Við teljum um ólöglegan gjörning að ræða og viljum vinda ofan af honum," segir Guðmundur Hjaltason, forstjóri Kers. Lögbannskrafan snýst um að atkvæðisréttur fylgi ekki auknu hlutafé og þá getur hluthafafundur afturkallað heimildina. Félögin sem hafa rekstur í fasteignum Festingar eiga endurkauparétt á fasteignunum, en nýting hans hefur í för með sér kostnað sem menn vilja forðast.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×