Lífið

Þreytist aldrei á útsýninu

"Sófinn í stofunni stendur við glugga sem nær yfir heilan vegg. Glugginn snýr í austur og þar er ofboðslega fallegt útsýni yfir Esjuna og Elliðaárdalinn sem er ein aðalástæða þess að þetta er uppáhaldshornið mitt á heimilinu," segir Ragnheiður Linnet söngkona sem situr yfirleitt ein að þessum góða stað þar sem heimilisfólkið vill frekar hreiðra um sig í sjónvarpsherberginu. "Ég þreytist aldrei á að horfa þarna út," bætir hún við. Og það er ekki bara fegurðin sem heillar. "Mér þykir líka gaman að sjá ljósin í borginni," segir Ragnheiður sem bjó lengi vel í Boston þar sem hún vandist lifandi borgarljósum. Dagarnir eru annasamir hjá söngkonunni Ragnheiði en hún starfar sem prófarkalesari hjá Fróða fyrir hádegi, syngur við athafnir eftir hádegi og endar daginn á að kenna söng og er tónlist því stór hluti af hennar lífi. "Ég hlusta mikið á músík í horninu mínu og þó að ég hlusti mest á klassík þá er margt annað sem heilllar," segir Ragnheiður og slakar á í sófanum með kaffibolla í hönd eftir langan vinnudag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×