Menning

"Stelpustrákur" á blæjubíl

Já, það er eins og fólki finnist einkennilegt að stelpa keyri svona bíl," segir Sólrún Dröfn og finnst það auðvitað alveg fáránlegt. "Ég hef alltaf verið hálfgerður "stelpustrákur" með bíladellu og finnst æðislegt að vera á flottum bíl. Ég er líka löggiltur bílasali og kannski finnst fólki það líka skrýtið." Bíll Sólrúnar Drafnar er af gerðinni Chevrolet Camaro árgerð '95. "Þetta er einn með öllu, mótorhjólagrár og eini bíllinn í þessum lit. Vélin er 350 LT1 og hásingin 10 bolta Chevy-hásing með diskalæsingu og drifhlutföllin 3.40:1. Svo er hann leðurklæddur að innan og græjurnar eru meiriháttar, Pioneer-geislaspilari, 700 w Boss-magnari og 12" TypeR-keilur frá Alpine." Sólrún segist ekki vera mikið ofan í vélarhlífinni á bílnum þótt hún geti gert það helsta eins og að skipta um bremsuklossa, olíu og dekk. "Aðalkikkið er að keyra bílinn, hann er svo ljúfur og þýður að maður finnur ekkert fyrir hraðanum." Sólrún er ekki óvön því að vekja athygli á bílnum sínum því Skodinn sem hún átti vakti alls staðar óskipta athygli. "Hann var fyrsti sportarinn sem ég átti en ég lét sprauta hann í mjög sérstökum grænum lit. Hann var líka einn af fyrstu "kittuðu" bílunum." Þótt skammt sé liðið á sumar er Sólrún þegar farin að hafa blæjuna niðri. "Það er langt í frá kalt, maður situr í skjóli og það er bara hlýtt og notalegt." Sólrún er á kafi í hestamennsku og er að temja fyrir fólk. "'Ég hef alltaf verið í hestamennsku og er að temja eftir vinnu. Svo er ég ofsalega áhugasöm um nýstofnaðan bílaklúbb sem heitir Bling Bling og vona að ég hafi fljótlega tíma til að sinna því áhugamáli."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×