Menning

Áhuginn vaknaði í tölvuleik

"Rosalega ertu fullorðinslegur. Ertu ekki bara fimmtán ára?" spyr blaðakona furðu lostin þegar Birgir svarar í símann. "Jú, ég heyri mjög oft að ég sé fullorðinslegur. Ég er líka með svo djúpa rödd," segir Birgir og hlær. Birgir hefur verið veikur fyrir bílum alla tíð og þegar hann var sjö ára kunni hann flest öll nöfn bílaframleiðanda heimsins utan að. "Ég man eftir fyrstu kynnum mínum af Formúlu 1. Það var sumarið 1999. Pabbi var að horfa og ég gekk inn í stofu og sá einn bílinn taka eina beygju og fussaði og sveiaði," segir Birgir sem er samt harður Formúlu maður í dag. "Áhuginn á formúlunni kviknaði um haustið 2000 þegar ég fékk tölvuleik í gjöf sem heitir Formula One 2000. Ég hef náttúrulega alltaf haft mikinn bílaáhuga og kappaksturinn var næsta skref." Sumarið 2001 tók Birgir upp á því að búa til tímarit sem hann kallaði F1-fréttir og var eingöngu um formúluna. Þegar leið á veturinn var Birgir búinn að eyða nógu bleki úr prentara föður síns þannig að hann bjó til vefsetrið F1 Center sem var upphaflega allt á ensku og hýst á fríu vefsvæði. Í fyrrasumar einfaldaði Birgir vefsvæðið og snaraði því yfir á íslensku. "Go.is voru svo góðir að hýsa síðuna frítt fyrir mig á f1center.go.is. En ætlunin er auðvitað að græða kannski smá pening á þessu einhvern daginn en það kemur allt í ljós." Það mætti halda að blaðamennskan og vefsíðan væru nóg fyrir Birgi en svo er aldeilis ekki. "Ég er ósköp venjulegur unglingur. Ég ber út blöð, fer reglulega í sjoppuna með vinum mínum, er á fullu í félagsstarfi í skólanum og æfi sund með keppnishópi sundfélagsins Ægis sem hefur reyndar setið aðeins á hakanum að undanförnu. Ég kann ekki að segja nei. Ég tek alltaf að mér alltof mikið og enda stundum á því að gera tvennt í einu. En ég geri alltaf mitt besta og ef ég fæ tækifæri þá verð ég að grípa það. Stundum fer ég oft á dag á Formúlu 1 síður á netinu og uppfæri vefsvæðið mitt stöðugt. Svo fer mikill tími í heimildavinnu fyrir greinarnar í Bílar og sport þannig að það er nóg að gera," segir Birgir sem er staðráðinn í því að læra fjölmiðlafræði í útlöndum eftir stúdentspróf. En er bílaáhugamaðurinn ekki búinn að kaupa sér bíl þótt hann vanti tvö ár í sjálft prófið? "Ég var komin með aðra höndina á bíl sem ég ætlaði að safna mér fyrir en hann var keyptur frá mér. Ég er náttúrulega eins og aðrir unglingar -- kann ekki að safna. En mig langar í gamlan, helst gangfæran Land Rover. Það væri fínt að hafa ár til að gera við hann þannig að ég gæti farið beint á götuna þegar ég fæ prófið. Ég fæ reyndar æfingarakstursleyfi í sumar og hlakka mikið til þess."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×