Lífið

Líður best í stofunni heima

"Mér finnst best að vera í stofunni, en þar finnst mér gott að setjast með kaffibollann minn og þangað býð ég gestum mínum," segir Nanna Guðbergsdóttir eigandi kaffihússins Segafredo á Lækjartorgi sem gerðist svo frægt á dögunum að taka af skarið með því að verða reyklaust kaffihús. "Stofan mín er hlýleg og kósí og ég loka sjónvarpið inn í skáp því ég vil ekki sjá það ef það er ekki verið að horfa á það," segir Nanna og hlær. Hún segist ekki hafa drukkið kaffi áður en hún opnaði kaffihúsið sitt en sé núna forfallin kaffimanneskja og er með flotta kaffivél heima sem býr til allskyns kaffidrykki. "Ég á svo sem ekkert sérstakt sparistel sem ég nota fyrir gestina, á bara eitt sem er bæði fínt og hversdagslegt og finnst það betra en að eiga stell inn í skáp sem er bara dregið fram nokkrum sinnum á ári," segir Nanna. Gestum sínum býður hún gjarnan upp á meðlæti með kaffinu og er dugleg við að baka pönnukökur og vöfflur. "Ég er orðin svo mikil mamma og finnst gaman að baka með dætrum mínum," segir Nanna brosandi. En þegar hún er ein leggst hún upp í sófa og kúrir yfir góðum þýskum tímaritum. "Ég bjó svo lengi í Þýskalandi að mér finnst gaman að glugga í þessi blöð og láta fara vel um mig, með kaffibollann að sjálfsögðu," segir Nanna og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×