Viðskipti innlent

Nýtt píramídafyrirtæki á Íslandi

Enn eitt píramídafyrirtækið ætlar að hasla sér völl á Íslandi þar sem gulli og grænum skógum er lofað. Nú er það fyrirtækið Bridge, sem er upprunnið í Svíþjóð, en skráð í Belís. Um 70 Íslendingar mættu á kynningarfund fyrirtækisins í gærkvöldi. Íslendingar hafa í gegnum tíðina tekið vel á móti sölumönnum slíkra fyrirtækja sem hafa gengið misjafnlega vel en Gísli R. Rafnsson, kynningarfulltrúi Bridge á Íslandi, segir fyrirtækið traust. Um sé að ræða fjárfestingarklúbb sem sé einn af þeim fyrstu á Norðurlöndum. Hann byggist á svipuðu grundvallarlögmáli og Almenningur ehf. hafi kynnt. Litla manninum sé leyft að fjárfesta í einhverju áður en það fari á markað. Gísli segir að áhætta fólks sé ekki mikil. Lágmarksfjárhæð til að taka þátt í fyrirtækinu sé þúsund dollarar eða um 65 þúsund krónur. Gísli segir að ekki sé um píramídafyrirtæki að ræða heldur sé þetta fyrirtæki þar sem fólk sé kynnt inn og það fái punkta fyrir það og laun fyrir punktana. Aðspurður hvort það sé ekki einmitt píramídafyrirtæki neitar Gísli því. Forráðamenn Bridge á Íslandi héldu kynningarfund á Hótel Nordica í gærkvöldi. Jón H. Snorrason, yfirmaður efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra, segir að embættið hafi reglulega varað við svokallaðri píramídastarfsemi. Embættinu berist reglulega upplýsingar um einstaklinga sem séu að reyna að nálgast fólk og selja því aðgang að píramídauppbyggðri peningasöfnun þar sem fjármagni og fríðindum sé lofað. Jón segir árangurinn misjafnan og að margir sitji eftir slík viðskipti með sárt ennið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×