Viðskipti innlent

Síminn: Bjóðendur opinberaðir

Bjóðendur í Símann verða opinberaðir í dag. Alls bárust fjórtán tilboð í fyrirtækið en að baki þeim standa þrjátíu og sjö fjárfestar, innlendir og erlendir. Tilboðunum var skilað inn fyrir réttri viku og hafa framkvæmdanefnd um einkavæðingu og ráðgjafar frá Morgan-Stanley farið yfir þau. Tilboðin voru ekki bindandi. Þeir bjóðendur sem uppfylla þau skilyrði sem sett voru fá nú tækifæri til að gera bindandi tilboð, eftir að hafa fengið nánari upplýsingar um fyrirtækið. Þegar þau tilboð verða skoðuð verður einvörðungu litið á það verð sem viðkomandi eru reiðubúnir að greiða. Verði hins vegar 5% munur eða minna á hæstu tilboðum verður þeim sem þau eiga gefinn kostur á að endurmeta þau og skila inn nýjum tilboðum samdægurs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×