Viðskipti innlent

Stærsta lýsisverksmiðja í heimi

Lýsi hf. tók í dag í notkun verksmiðju sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Níutíu prósent af framleiðslu fyrirtækisins eru flutt út. Í breskum fræðsluþætti var m.a. skýrt frá rannsókn þar sem börnum voru gefnar lýsispillur og við það skerptist athyglisgáfan og orkan jókst. Með hinni nýju verksmiðju Lýsis hf. tvölfaldast framleiðslugetan þannig að búast má við að börn verði sýnu greindari hér eftir en áður. Lýsi hf. var stofnað árið 1938 og hefur verið til húsa við Grandaveg allar götur síðan. Það húsnæði er fyrir löngu orðið alltof lítið og því mikil viðbrigði að flytja í hið nýja 4400 fermetra hús sem er með fullkomnasta tækjabúnaði sem völ er á. Framleiðslugetan tvöfaldast, upp í 6000 tonn á ári, og Katrín Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Lýsis, segir að það skipti sköpum um framtíð verksmiðjunnar. Þetta sé gríðarleg breyting en fyrst og fremst aukist framleiðslugetan. Lýsi geti því mætt betur þörfum viðskiptavina sinna en það hafi fyrirtækið ekki getað gert hingað til. Katrín segir að það styrki markað verksmiðjunnar að sífellt sé verið að birta rannsóknir þar sem niðurstaðan sé sú að lýsi hafi mjög góð áhrif á heilann og sé raunar bráðhollt fyrir allan skrokkinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×