Viðskipti innlent

Myndbandaleiga á Netinu

Fyrsta íslenska myndbandaleigan á Netinu hefur verið tekin í notkun. Um er að ræða nýjan afþreyingarvef þar sem hægt er að horfa á bíómyndir í gegnum Netið án endurgjalds. Þessi þjónusta er þó einungis í boði fyrir þá sem eru notendur BTnets og verða viðskiptavinir að vera með ADSL. Fyrir þennan hóp er nú hægt að horfa á bíómyndir í fullri lengd og toppgæðum og tekur aðeins örfáar sekúndum að fá myndina á skjáinn eftir að hún hefur verið pöntuð. Stefán Hjörleifsson, framkvæmdastjóri BT, segir að um tilraunaverkefni sé að ræða en í framtíðinni sé stefnt á að allt nettengt fólk geti leigt myndir af BTnet-myndbandaleigunni á því verði sem spóla kostar á hefðbundinni myndbandalegir og velta því eflaust margir fyrir sér hvort þess konar starfsemi muni ekki detta upp fyrir fljótlega. Á sama vef, sem hefur hlotið nafnið Gamezone, er að finna alls konar afþreyingu og skemmtun sem er opin fyrir alla og hefur verið sérstaklega sniðin að þörfum og óskum netverja. Þar hafa einnig verið settir upp leikjaþjónar þar sem finna má stöðu spilara á hverjum þjóni, ná í uppfærslur og skýrslur tengda leikjum. BTnet er rekið af D3, stafrænni einingu Dags Group sem meðal annars rekur tónlistarvefinn Tónlist.is og ýmsar SMS þjónustur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×