Viðskipti innlent

Steinunn seldi Burðarási

"Okkur buðust þessi bréf í dag og við ákváðum að kaupa þau með stuttum fyrirvara," sagði Friðrik Jóhannsson, forstjóri Burðaráss, í gær eftir að tilkynnt var að félagið hefði keypt rúm fjögur prósent í Íslandsbanka. Seljandi hlutabréfanna var Steinunn Jónsdóttir, stjórnarmaður í bankanum. Söluverðmæti hlutanna er um 7,3 milljarðar króna. Steinunn keypti hlut í Íslandsbanka í júlí á síðasta ári og bætti við sig hlutum í október. Erfitt er að fullyrða um hagnað hennar af sölunni en líklegt er að hann sé á annan milljarð. Eftir að Jón Helgi Guðmundsson í BYKO, faðir Steinunnar, seldi nýlega sinn hlut í bankanum til stjórnenda Íslandsbanka hefur verið hörð barátta um hennar hlut. Tengjast þau átök valdabaráttu innan Íslandsbanka. Ekkert liggur fyrir um hvort knúið verður á um stefnubreytingu í bankanum með boðun hluthafafundar. Ef til átaka kemur er líklegt að Burðarás verði samstíga Straumi, stærsta hluthafa bankans, en Steinunn hefur stutt núverandi stjórnendur bankans. Salan í gær getur því breytt valdahlutföllum í bankanum þótt ekki sé víst að á það reyni á næstunni. Friðrik vildi ekkert segja til um það hvort Burðarás ætlaði að bæta við sig í bankanum. Steinunn vildi ekki tjá sig um þessi viðskipti í gær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×