Viðskipti innlent

Breytinga að vænta hjá Europris

"Þessi mál eru enn á huldu en eiga eftir að skýrast á næstu dögum," segir Lárus Guðmundsson, einn eigenda í verslunum Europris, um hvort breytinga sé að vænta á eignarhaldi fyrirtækisins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins ætlar Matthías Sigurðsson, sem á ráðandi hlut í fyrirtækinu, að selja hlut sinn. Lárus er minnihlutaeigandi í fyrirtækinu ásamt bróður sínum Ottó. Bræðurnir verjast frétta af málinu en viðurkenna að tíðinda sé að vænta innan skamms. "Þetta er allt í vinnslu og ég vil ekki tjá mig meira um þetta mál að svo stöddu," sagði Ottó spurður hvort nýrra eigenda að fyrirtækinu væri að vænta. Hvorugur bræðranna vildi gefa nokkuð upp hver hugsanlegur kaupandi væri. Fyrsta verslun Europris opnaði á Lynghálsi fyrir þremur árum. Í dag rekur Europris fjórar verslanir; þrjár í Reykjavík og eina á Selfossi. Ekki náðist í Matthías Sigurðsson vegna málsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×