Viðskipti innlent

Mosaic Fashions inn í Kauphöll

Mosaic Fashions varð í dag fyrsta breska félagið sem skráð er á aðallista Kauphallar Íslands. Útgefið hlutafé félagsins er tæpir þrír milljarðar króna að nafnverði. Forstjóri Kauphallarinnar segir þetta kannski ryðja brautina fyrir fleiri erlend félög. Mosaic Fashions er móðurfélag fjögurra leiðandi tískuvörumerka í kvenfatnaði og fylgihlutum, Oasis, Karen Millen, Coasts og Whistles, en samanlagt eru 680 verslandir undir þessum merkjum um allan heim. Velta félagsins á síðasta ári var liðlega 42 milljarðar króna og hagnaðurinn rúmir fjórir milljarðar króna. Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, bauð félagið sérstaklega velkomið í Kauphöllina, bæði væri þetta fyrsta breska fyrirtækið sem skráð er í Kauphöll Íslands og það væri í atvinnugrein þar sem fá félög eru fyrir. Hann sagði Mosaic því gera markaðinn litríkari og hugsanlega fylgi fleiri félög í kjölfarið. Félagið efndi til hlutafjárútboðs á dögunum þar sem eftirspurn reyndist töluverð umfram framboð. Útboðsgengið var 13,6, en í síðustu viðskiptum var það komið í 14,25. Íslandsbanki segir að miðað við síðasta gengi sé markaðsvirði fyrirtækisins liðlega 41 milljarður króna. Derek Lovelock, forstjóri Mosaic, lýsti því yfir þegar félagið var skráð í Kauphöllina í morgun að hjá fyrirtækinu væru menn mjög ánægðir með árangurinn af hlutafjárútboðinu, sem staðfesti jákvætt viðhorf til félagsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×