Viðskipti innlent

Lokasprettur í sölu Símans

Komið er að lokasprettinum í sölu Símans. Að viðstöddum bjóðendum og fjölmiðlum ætlar einkavæðinganefnd að opna umslög með tilboðsfjárhæðum bjóðenda á fimmtudaginn. Eftir að tilboð hafa verið opnuð verður öllum þeim sem eru innan við fimm prósent frá hæstbjóðenda gefinn kostur á að hækka tilboð sín. Það gildir einnig um þann sem hæsta tilboð sendir inn. Tilboð verða síðan opnuð að nýju síðdegis á fimmtudag og þá ræðst hver hefur boðið hæst í Símann og verður þar af leiðandi kaupandinn, svo fremi að Samkeppniseftirlitið samþykki viðskiptin. Reiknað er með að skrifað verði undir samning við hæstbjóðanda í ágúst. Tólf hópar fengu grænt ljós hjá Einkavæðinganefnd um að gera bindandi tilboð í Símann en ekki er vitað hversu mörg tilboð hafa borist. Sex hópar af þessum tólf voru með svokölluð fjörutíu og fimm prósenta tilboð og var því ljóst að þeir yrðu að sameinast til að uppfylla skilyrði nefndarinnar. Nokkrar vangaveltur hafa verið um mögulega kaupendur og má nefna líklega Atorka Group og nokkra athafnamenn, hóp fjárfesta sem í er Exista sem áður hét Meiður og er meðal annars í eigu bræðranna í Bakkavör, KB banka og fleiri fjárfesta og svo fjárfestahóp sem samdi við Almenning sem Burðarás, KEA, Tryggingamiðstöðin og fleiri standa að.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×