Viðskipti innlent

Dagsbrún móðurfélag 365 miðla

Og fjarskipti hf. ráðgera að nýtt skipulag samstæðunnar muni taka gildi 1. október nk. Hið nýja nafn samstæðunnar mun verða Dagsbrún hf. Fjarskiptarekstri félagsins verður komið fyrir í dótturfélaginu Og fjarskipti (Og Vodafone) sem heyra mun undir móðurfélagið ásamt 365 prentmiðlum ehf. og 365 ljósvakamiðlar ehf. Dagsbrún hf. mun verða hið skráða félag í Kauphöll Íslands. Dagsbrún mun marka sér stöðu á sviði fjarskipta, fjölmiðlunar og afþreyingar og stefnir að því að verða leiðandi í umbreytingum á þessum sviðum hérlendis og leiða útrás íslenskra fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækja á erlenda markaði. Fjármálaumsýsla móður- og dótturfélaga verður innan Dagsbrúnar en að öðru leyti verður reynt að tryggja sjálfstæða þróun dótturfyrirtækjanna og viðhalda þeim frumkvöðlaanda sem drifið hefur áfram uppbyggingu Og Vodafone og 365 miðla, að því er segir í tilkynningu. Stefnt er að því að vöxtur Dagsbrúnar verði jöfnum höndum innan núverandi dótturfyrirtækja og með kaupum á öðrum félögum á sviði fjarskipta, fjölmiðla og afþreyingar. Þegar hefur verið markað upphaf að vexti á erlendri grund með kaupum á fjarskiptafélaginu P/F Kall í Færeyjum. Forstjóri Dagsbrúnar hf. verður Eiríkur S. Jóhannsson en hann er í dag forstjóri Og fjarskipta hf. Eiríkur mun jafnframt verða stjórnarformaður dótturfélaganna. Viðar Þorkelsson verður framkvæmdastjóri fjármálasviðs Dagsbrúnar auk þess að vera staðgengill forstjóra félagsins. Gunnar Smári Egilsson er forstjóri 365 miðla. Nýr forstjóri Og Vodafone verður Árni Pétur Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Haga. Þessir fjórir mynda framkvæmdastjórn Dagsbrúnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×