Viðskipti innlent

Þjónustugjöld ekki felld niður

Ekki er líklegt að þjónustugjöld bankanna verði felld niður í bráð eins og þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins lagði til í gær. Bankarnir skiluðu allir methagnaði á fyrri hluta ársins, samtals um 54 milljörðum króna. Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hvatti stjórnendur þeirra í gær til að lækka eða fella niður þjónustugjöld og láta almenning þannig njóta góðs af þessum mikla hagnaði. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri KB-banka sem skilaði 25 milljarða króna hagnaði á fyrri hluta ársins, segir ljóst að bætt afkoma bankanna hafi skilað sér til neytenda. Samanborið við flest önnur lönd sé mjög ódýrt að eiga bankaviðskipti á Íslandi en megnið af hagnaði KB banka sé af fjárfestingabankastarfsemi en ekki viðskiptum við einstaklinga. Spurður hvort einmitt þess vegna megi ekki fella þjónustugjöldin niður segir Hreiðar Már að á síðasta ári hafi helmingur gjaldanna verið endurgreiddur í ljósi góðrar afkomu og rétt sé að bíða og sjá hvað verði gert í lok þessa árs. Bjarni Ármannsson, bankastjóri Íslandsbanka, tekur í sama streng og Hreiðar Már. Hann segir þjónustugjöldin óverulegan hluta hagnaðarins - þau eigi einfaldlega að standa undir kostnaði. Sá hagnaður sem nú sé að koma fram sé að verulegum hluta gengishagnaður sem geti sömuleiðis snúist í tap þannig að verðlagning á einstökum afurðum geti ekki alfarið tekið mið af afkomu annarra eininga. Ekki náðist í Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóra Landsbankans, en hann er staddur erlendis.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×