Sport

"Borgvardt var munurinn"

Ólafur Kristjánsson þjálfari Fram var í skýjunum með baráttu sinna manna í sigurleiknum gegn FH í gærkvöldi en þá tryggði Safamýrarliðið sér farseðilinn í úrslitaleik VISA bikarsins í knattspyrnu. Ólafur horfði aðdáunaraugum á sína menn leika fótbolta gegn Íslandsmeisturunum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. "Það var virkilega gaman að fylgjast með leikmönnunum af hliðarlínunni í þessum leik. Það var mikil barátta og vilji hjá leikmönnum til þess að vinna leikinn. Það skilaði sér að lokum." sagði Ólafur í viðtali við Fréttablaðið þegar sigurinn var í höfn. Honum finnst gaman að geta staðið við stór orð. "Ég sagði fyrir leikinn að við myndum vinna þennan leik og það er sérstaklega gaman að geta staðið við þau orð." Framarar voru síst lakari aðilinn í fyrri hálfleik þó þeir færu til búningsklefa tveimur mörkum undir sem Allan Borgvardt skoraði bæði fyrir FH. "Munurinn á liðunum í fyrri hálfleik var bara Allan Borgvardt." sagði Ólafur. Fram mætir annað hvort Val eða Fylki í úrslitaleik bikarkeppninnar laugardaginn 24. september í haust. Valur og Fylkir eigast við í hinum undanúrslitaleiknum í kvöld kl. 19:40 á Laugardalsvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×