Viðskipti innlent

Yfirtökuskylda könnuð

Yfirtökunefnd er nú að kanna hvort nýir hluthafar í Icelandair, eða FL Group, séu svo tengdir Baugi og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni fjárhagslega, að yfirtökuskylda hafi myndast. Yfirtökunefnd hefur fjallað um málefni FL Group á nokkrum fundum sínum og skipað sérstaka nefnd til þess að kanna hvort nokkrir hluthafar í fyrirtækinu væru svo efnahagslega tengdir að yfirtökuskylda hafi myndast. Nefndin hefur boðað þessa hluthafa á sinn fund, til þess að fjalla um málið. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar var tilefnið það að þegar stjórn FL-Group sagði af sér á dögunum komu inn bæði nýir stjórnarmenn og nýir hluthafar. Baugur á hlut í FL-group sem og Jón Ásgeir Jóhannesson, og kona hans Ingibjörg Pálmadóttir. Þá eru einnig hluthafar Sigurður Bolli Ásgeirsson, Magnús Ármann og Kevin Stanford. Enginn þessara aðila á svo stóran hlut að það hafi myndast yfirtökuskylda. Þeir Jón Ásgeir, Sigurður Bolli, Magnús Ármann og Kevin Stanford hafa hinsvegar átt samstarf á öðrum sviðum, svo sem við kaup á tískufyrirtækinu Karen Millen. Yfirtökunefnd er að kanna er hvort þessi tengsl séu svo mikil að þessir hluthafar teljist vera einn aðili, en ekki margir einstaklingar. Og ef þeir teljast vera einn aðili, hvort hlutur þeirra sé svo stór að það hafi myndast yfirtökuskylda.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×