Viðskipti innlent

Júlí metmánuður hjá Icelandair

Farþegar Icelandair í júlí 2005 voru rúmlega 214 þúsund og hafa aldrei verið fleiri í einum mánuði í sögu félagsins, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá félaginu. Farþegum fjölgaði um 16,2 prósent frá því í júlí í fyrra en þá voru farþegarnir 184 þúsund. Farþegafjöldinn í júlí í ár samsvarar því að félagið hafi flutt um 70 prósent íslensku þjóðarinnar í mánuðinum, en sú er ekki raunin, því mikill meirihluti farþeganna er erlendur. Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 13,5 prósent og eru þeir 882 þúsund. Sætanýting hefur batnað um 2,3 prósentustig og er það sem af er árs 76,9 prósent. Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fækkaði hins vegar um 3 prósent í fyrra mánuði og voru þeir tæplega 29 þúsund, en þeim hefur þó fjölgað frá áramótum um 4,6 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×