Viðskipti innlent

Baugur með í Merlin-kaupum

Íslenskir fjárfestar undir forystu Sverris Berg Steinarssonar, fyrrverandi forstjóra Dags Group, eiga í viðræðum um kaup á dönsku raftækjakeðjunni Merlin af danska fyrirtækinu FDP. Sverrir vildi ekki tjá sig um þessi kaup að öðru leyti en því að hann ásamt hópi fjárfesta væru að skoða fyrirtækið. Kaupin munu ekki vera frágengin. Hann vildi að svo stöddu ekki gefa upp hvaða fjárfestar yrðu með honum í kaupunum ef af þeim yrði. Samkvæmt heimildum er þó líklegast að Baugur muni koma að þessum kaupum og hugsanlega Milestone sem er í eigu Karls Wernerssonar og Róbert Melax, eigandi Dags Group. Milestone hefur verið að hasla sér völl í fjárfestingum og var aðili að kaupum á Iceland-keðjunni, auk þess sem félagið fjárfesti nýlega í ilmvatnsdreifingarfyrirtæki í Bretlandi. Rekstur Merlin hefur gengið illa að undanförnu og var tap síðasta árs 1,3 milljarðar króna. Merlin er þekkt vörumerki í raftækjum og þvottavélum en hefur ekki gengið vel í samkeppni á markaði. Þeir þykja seinir til nýjunga og ætlun Íslendinganna verði af kaupum er að færa búðirnar í nútímalegra horf. Íslensku fjárfestarnir hafa komið að rekstri BT-verslananna á Íslandi og hyggjast nýta sér þá þekkingu við uppbyggingu Merlin-verslananna sem eru margar hverjar vel staðsettar í Danmörku.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×