Viðskipti innlent

Stærsta greiðsla Íslandssögunnar

Í kjölfarið fengu eigendurnir hlutabréfin í Símanum afhend og fyrirtækið því formlega komið úr opinberri eigu. Eftir þessi viðskipti hefur ríkið dregið sig að öllu leyti út úr samkeppnisrekstri á fjarskiptamarkaði. Um helmingur upphæðinnar eða 34,5 milljarðar var greidd í íslenskum krónum. Þá fékk ríkið 310 milljónir evra og 125 milljónir Bandaríkjadala sem hluta af greiðslunni. Miðað er við gengi þessara gjaldmiðla eins og það var skráð 27. júlí. Eignarhaldsfélagið Skipti er skráður kaupandi Símans. Eigendur félagsins eru Exista með 45 prósent, KB banki með 30 prósent, fjórir lífeyrissjóðir með samtals 21 prósent og MP Fjárfestingarbanki og Skúli Þorvaldsson með tvö prósent hvor. Þessir aðilar hafa óskað eftir því við stjórn Símans að aðalfundur verði haldinn 17. september næstkomandi. Þá verður ný stjórn kosin sem tekur yfir rekstur Símans. Erlendur Hjaltason, forstjóri Exista, sagði í gær að þetta ferli hefði gengið vel fyrir sig. Samstarf við einkavæðingarnefnd hefði verið gott og málið vel undirbúið að öllu leyti. Hans hlutverk væri ekki stórt á þessum degi þar sem allt væri þetta rafrænt, bæði sjálf greiðslan og svo eigendaskiptin á hlutabréfunum sjálfum. Hann taldi hvorki tímabært að tjá sig um væntanlegt stjórnarkjör né framtíðarrekstur Símans.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×