Viðskipti innlent

Óttast lækkandi íbúðaverð

Viðskiptabankarnir, sem hófu að lána allt að hundrað prósent til íbúðakaupa í fyrra, óttast nú að íbúðaverð kunni að fara lækkandi. Landsbankinn hefur ákveðið að lækka lánahlutfallið niður í áttatíu prósent til að verja veðhagsmuni sína. Áður hafði hann lækkað hlutfallið niður í 90 prósent í desember eftir að það hafði verið hundrað prósent í fjóra mánuði eins og hjá hinum bönkunum. Lánasérfræðingar Íslandsbanka og KB banka töldu að 90 prósenta hlutfallið væri enn í gildi í þeim bönkum, en þó aðeins í orði kveðnu. Í raun væru bankarnir allir búnir að lækka hlutfallið niður í u.þ.b. 80 prósent í flestum tilvikum, en hver umsókn væri metin fyrir sig. Bankarnir hefðu allir hert á ýmsum skilyrðum, til dæmis greiðslumati, eins og fréttastofan hefur greint frá. Eins og fram hefur komið lækkaði húsnæði í verði í síðasta mánuði í fyrsta sinn um langt skeið og eftir að hafa hækkað um 40 prósent tólf mánuðina þar á undan. Haldi lækkunin eitthvað áfram er ljóst að veð fyrir einhverjum af hundrað prósenta lánun verða hærri en raunvirði íbúðanna. Þetta er staðfest í tilkynningu Landsbankans um lækkunina þar sem segir, út frá allt öðru sjónarhorni þó: „Landsbankinn grípur til þessara aðgerða til að draga úr hættu á því að viðskiptavinir bankans lendi í þeirri stöðu að lán þeirra verði hærri en markaðsverðmæti eignarinnar.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×