Innlent

Fjölga þarf rýmum

Heilbrigðisráðherra fór á Sogn og tilkynnti um skipun starfshóps til að huga að uppbyggingu.
Heilbrigðisráðherra fór á Sogn og tilkynnti um skipun starfshóps til að huga að uppbyggingu. MYND/Heiða

Fjölga verður rýmum á réttargeðdeildinni á Sogni þar sem hún rúmar ekki lengur alla þá sem þyrfti að vista þar segir heilbrigðisráðherra. Hann hefur skipað starfshóp til að huga að uppbyggingu á Sogni.

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, segir áríðandi að fara yfir hvaða aðgerða þurfi að grípa til svo réttargeðdeildin á Sogni anni þeim verkefnum sem fyrir liggja. Nú sé svo komið að öll rými séu fullnýtt og rúmlega það. Þetta kemur í kjölfar þess að fleiri eru dæmdir ósakhæfir en áður var. Breytingin er mikil segir heilbrigðisráðherra. Hér áður fyrr voru sakhæfir einstaklingar stundum vistaðir á Sogni vegna þess að þar var nóg af rýmum en nú eru fleiri á Sogni en réttargeðdeildin var byggð fyrir.

Heilbrigðisráðherra fór á Sogn í gær þar sem hann kynnti sér starfsemina og aðstæður á réttargeðdeildinni. Þar tilkynnti hann einnig um skipan starfshóps sem á að huga að uppbyggingu á Sogni, meta hver þörfin væri og gera tillögur um hvaða leiðir skuli farnar til að anna henni.

Nú er rými fyrir sjö vistmenn á Sogni og að auki hefur herbergi sem var ætlað undir annað verið notað undir áttunda vistmanninn. Jón segir að fjölga þurfi rýmum en segir það ráðast í meðferð starfshópsins hversu mörg rými bætast við og með hvaða hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×