Viðskipti innlent

Avion Group skilar bættri framlegð

Tap af rekstri Avion Group á fyrsta ársfjórðungi reikningsársins, sem lauk í lok janúar, nam 9.942 milljónum Bandaríkjadala sem samsvarar um 715 milljónum króna. Afkoman var í takt við væntingar stjórnenda en hafa ber í huga að hagnaður fyrirtækisins myndast á seinni hluta ársins.

Tap félagsins minnkaði snarlega á milli ára og varð rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir (EBITDA) jákvæður um 8,21 milljón dala en var neikvæður að upphæð 5,2 milljónir dala á fyrsta fjórðungi árið 2005. Framlegðarhlutfallið, það er EBITDA af rekstrartekjum, var 2,6 prósent.

Tekjur félagsins á tímabilinu námu um 321 milljón dala og jukust um 84 prósent frá fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Kostnaður var 332 milljónir dala og jókst um 71 prósent.

Rekstur dótturfélaga Avion er nokkuð sveiflukenndur. Varð mikið tap af starfsemi Excel Airways í Bretlandi en gott jafnvægi í rekstri Air Atlanta og Eimskips, en bæði fyrirtækin skiluðu auknum rekstrarhagnaði fyrir afskriftir á milli ára.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×