Vinstri, hægri, fram og aftur 6. maí 2006 00:01 Allt frá dögum frönsku byltingarinnar hefur verið hefð fyrir því að skilgreina stjórnmál sem eins konar dans eða handbolta þar sem meginhreyfingarnar eru til vinstri og hægri en hreyfingarleysið er á miðjunni. Þessi flokkun hefur ýmsa kosti en einnig verulega galla. Mér finnst það t.d. verulegur galli á henni að hún er ósöguleg, tekur ekki tillit til hugmynda um þróun og framfarir. Af þeim sökum bætir það nokkru við skilning að líta einnig á stjórnmálin sem hreyfingu fram og aftur. Meginandstæðurnar eru þá á milli afturhaldsmanna, íhaldsmanna og framfarasinna. Eftir sem áður eru sömu meginandstæðurnar í stjórnmálum, en hafa nú sögulega vídd og hægt er að leggja á þær mælikvarða þróunar og jafnvel framfara. Samkvæmt þessu væru hægrimenn þá afturhaldsmenn og á það nokkuð vel við þegar litið er til pólítískrar orðræðu þeirra á hverjum tíma. Á 19. öld litu hægrimenn í Frakklandi t.d. með söknuði til tímans fyrir frönsku byltinguna og vildu endurreisa konungsveldið. Á 20. öld horfðu hægrimenn hins vegar til 19. aldar sem gullaldar borgarastéttarinnar en höfnuðu sósíalískum hreyfingum samtímans. Hugmyndafræðingar þeirra voru karlar frá 17. og 18. öld, menn eins og John Locke, Edmund Burke og Adam Smith, en þeir höfðu óbeit á fremstu hugsuðum samtímans. Fyrir nokkrum dögum mátti t.d. lesa pistil eftir klassískan afturhaldsmann í Blaðinu þar sem skammast var út í kanadíska hagfræðinginn John Kenneth Galbraith, en pistillinn hefði alveg eins getað snúist um Jean-Paul Sartre, Michel Foucault eða Noam Chomsky. Undanfarinn aldarfjórðungur hefur verið "endurreisnarskeið" í augum afturhaldsmanna, ekki þó konungsveldisins heldur "alþjóðavæðingar" í anda heimsvaldastefnu 19. aldar. Hvað mun afturhaldsmenn dreyma um á 21. öld? Það getum við auðvitað ekki séð fyrir en mér finnst líklegt að gullöld þeirra verði þá 20. öldin með óheftri orkusóun, einkabílum og stórvirkjunum. Afturhaldsstefna framtíðarinnar er í mótun í þessum orðum töluðum. Miðjumenn eru á hinn bóginn íhaldsmenn í klassískum skilningi. Stefna þeirra er þróuð með markaðsrannsóknum í þeim tilgangi að fanga tíðarandann og elta það sem er vinsælt hverju sinni. Þeir líta til samtíðar en ekki framtíðar, sem kemur m.a. fram í tilhneigingu til að kalla sig "nútímalega". Miðjan hafnar valkostum, hvort sem stefnt er fram eða aftur, og heldur alltaf með sigurliðinu í ágreiningsmálum fortíðarinnar. Hættur miðjustefnunnar felast í því að miðjumönnum hættir til að líta á nútímann sem besta mögulega veruleikann að hætti meistara Altungu í skáldsögu Voltaires, en upplýsingarmaðurinn franski skapaði þá persónu sem paródíu á íhaldsmenn síns tíma. Vinstrimenn eru hins vegar framfarasinnar. Þeir trúa á betri heim og eru afar gagnrýnir á eigið samfélag, benda á aðra valkosti og lausnir sem eru umfram allt nýjar, jafnvel draumalönd og útópíur, en í augum íhaldsmanna eru þeir "fúlir á móti". Vinstrimenn trúa á möguleika mannsins til að bæta sig og fullkomna og þeim er það eiginlegt að freistast til að hanna söguleg módel þar sem þróun í átt til framfara verður nánast óhjákvæmileg samfara breyttum þjóðfélagsháttum. Vinsældir marxismans meðal vinstrimanna eru engin tilviljun. Frjó hugsun og sprengikraftur einkennir framfarasinna umfram afturhalds- og íhaldsmenn en í framfarastefnunni felast líka ýmsir pyttir. Framfarahugtakið er erfitt viðureignar og engin ein skilgreining til á því hvað telst til framfara og hvað ekki. Þess vegna er hið alræmda sundurlyndi vinstrimanna eðlilegur fylgifiskur framfarahyggju þeirra, þar sem margir hópar geta boðið fram sína útgáfu af framtíðinni. Þá er eðlilegt að veruleiki hins óþekkta hræði marga sem kjósi frekar þekkta fortíð eða samtíð. Hér ætla ég ekki að leggja mat á það hvort sé í eðli sínu betra eða verra, afturhald, stöðugleiki eða framfarir. Það hlýtur að sumu leyti að ráðast af skapferli hvers og eins hvað honum finnst best: Kunnugleg fortíð, örugg samtíð eða óviss framtíð. Þá geta hagsmunir fólks verið misjafnir eftir stöðu þess í samtíðinni. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að á Vesturlöndum sé íhaldssemi miðjunnar nú allsráðandi, en í þriðja heiminum leiti fólk frekar í smiðju útópískra framfarasinna, eða þá afturhaldsmanna. Mistök Vesturlanda í stefnu sinni gagnvart þriðja heiminum felast ekki síst í þeirri trú að ef sósíalískum framfarasinnum í Austurlöndum nær yrði útrýmt myndi fólk í þessum fátæku löndum upp til hópa gerast þægir íhaldsmenn. Þess í stað hefur það leitað í smiðju manna sem vilja endurreisa kalífaríki miðalda. Þegar ein leið úr óbærilegum samtíma lokast þá opnast önnur í staðinn. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Skoðanir Sverrir Jakobsson Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Allt frá dögum frönsku byltingarinnar hefur verið hefð fyrir því að skilgreina stjórnmál sem eins konar dans eða handbolta þar sem meginhreyfingarnar eru til vinstri og hægri en hreyfingarleysið er á miðjunni. Þessi flokkun hefur ýmsa kosti en einnig verulega galla. Mér finnst það t.d. verulegur galli á henni að hún er ósöguleg, tekur ekki tillit til hugmynda um þróun og framfarir. Af þeim sökum bætir það nokkru við skilning að líta einnig á stjórnmálin sem hreyfingu fram og aftur. Meginandstæðurnar eru þá á milli afturhaldsmanna, íhaldsmanna og framfarasinna. Eftir sem áður eru sömu meginandstæðurnar í stjórnmálum, en hafa nú sögulega vídd og hægt er að leggja á þær mælikvarða þróunar og jafnvel framfara. Samkvæmt þessu væru hægrimenn þá afturhaldsmenn og á það nokkuð vel við þegar litið er til pólítískrar orðræðu þeirra á hverjum tíma. Á 19. öld litu hægrimenn í Frakklandi t.d. með söknuði til tímans fyrir frönsku byltinguna og vildu endurreisa konungsveldið. Á 20. öld horfðu hægrimenn hins vegar til 19. aldar sem gullaldar borgarastéttarinnar en höfnuðu sósíalískum hreyfingum samtímans. Hugmyndafræðingar þeirra voru karlar frá 17. og 18. öld, menn eins og John Locke, Edmund Burke og Adam Smith, en þeir höfðu óbeit á fremstu hugsuðum samtímans. Fyrir nokkrum dögum mátti t.d. lesa pistil eftir klassískan afturhaldsmann í Blaðinu þar sem skammast var út í kanadíska hagfræðinginn John Kenneth Galbraith, en pistillinn hefði alveg eins getað snúist um Jean-Paul Sartre, Michel Foucault eða Noam Chomsky. Undanfarinn aldarfjórðungur hefur verið "endurreisnarskeið" í augum afturhaldsmanna, ekki þó konungsveldisins heldur "alþjóðavæðingar" í anda heimsvaldastefnu 19. aldar. Hvað mun afturhaldsmenn dreyma um á 21. öld? Það getum við auðvitað ekki séð fyrir en mér finnst líklegt að gullöld þeirra verði þá 20. öldin með óheftri orkusóun, einkabílum og stórvirkjunum. Afturhaldsstefna framtíðarinnar er í mótun í þessum orðum töluðum. Miðjumenn eru á hinn bóginn íhaldsmenn í klassískum skilningi. Stefna þeirra er þróuð með markaðsrannsóknum í þeim tilgangi að fanga tíðarandann og elta það sem er vinsælt hverju sinni. Þeir líta til samtíðar en ekki framtíðar, sem kemur m.a. fram í tilhneigingu til að kalla sig "nútímalega". Miðjan hafnar valkostum, hvort sem stefnt er fram eða aftur, og heldur alltaf með sigurliðinu í ágreiningsmálum fortíðarinnar. Hættur miðjustefnunnar felast í því að miðjumönnum hættir til að líta á nútímann sem besta mögulega veruleikann að hætti meistara Altungu í skáldsögu Voltaires, en upplýsingarmaðurinn franski skapaði þá persónu sem paródíu á íhaldsmenn síns tíma. Vinstrimenn eru hins vegar framfarasinnar. Þeir trúa á betri heim og eru afar gagnrýnir á eigið samfélag, benda á aðra valkosti og lausnir sem eru umfram allt nýjar, jafnvel draumalönd og útópíur, en í augum íhaldsmanna eru þeir "fúlir á móti". Vinstrimenn trúa á möguleika mannsins til að bæta sig og fullkomna og þeim er það eiginlegt að freistast til að hanna söguleg módel þar sem þróun í átt til framfara verður nánast óhjákvæmileg samfara breyttum þjóðfélagsháttum. Vinsældir marxismans meðal vinstrimanna eru engin tilviljun. Frjó hugsun og sprengikraftur einkennir framfarasinna umfram afturhalds- og íhaldsmenn en í framfarastefnunni felast líka ýmsir pyttir. Framfarahugtakið er erfitt viðureignar og engin ein skilgreining til á því hvað telst til framfara og hvað ekki. Þess vegna er hið alræmda sundurlyndi vinstrimanna eðlilegur fylgifiskur framfarahyggju þeirra, þar sem margir hópar geta boðið fram sína útgáfu af framtíðinni. Þá er eðlilegt að veruleiki hins óþekkta hræði marga sem kjósi frekar þekkta fortíð eða samtíð. Hér ætla ég ekki að leggja mat á það hvort sé í eðli sínu betra eða verra, afturhald, stöðugleiki eða framfarir. Það hlýtur að sumu leyti að ráðast af skapferli hvers og eins hvað honum finnst best: Kunnugleg fortíð, örugg samtíð eða óviss framtíð. Þá geta hagsmunir fólks verið misjafnir eftir stöðu þess í samtíðinni. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að á Vesturlöndum sé íhaldssemi miðjunnar nú allsráðandi, en í þriðja heiminum leiti fólk frekar í smiðju útópískra framfarasinna, eða þá afturhaldsmanna. Mistök Vesturlanda í stefnu sinni gagnvart þriðja heiminum felast ekki síst í þeirri trú að ef sósíalískum framfarasinnum í Austurlöndum nær yrði útrýmt myndi fólk í þessum fátæku löndum upp til hópa gerast þægir íhaldsmenn. Þess í stað hefur það leitað í smiðju manna sem vilja endurreisa kalífaríki miðalda. Þegar ein leið úr óbærilegum samtíma lokast þá opnast önnur í staðinn.