Þrjú töp á tíu dögum Ingibjörg Pálmadóttir skrifar 29. maí 2006 00:01 Um síðustu helgi töpuðu mínir menn fyrir KR 2 - 0, svo lágum við fyrir FH, og á laugardaginn tapaði svo flokkurinn minn sveitarstjórnarkosningunum, og nú ríður á að vinir mínir og félagar í Framsóknarflokknum tapi sér ekki. Nú eigum við að ræða málin í okkar hóp og takast á inn á við og ekki skemmta andstæðingum okkar með ótímabærum yfirlýsingum, eða með því að vera nafnlausir heimildamenn ákveðinna fréttamanna sem hafa gaman af að flytja tortímingarfréttir af Framsóknarflokknum. Nú þurfum við að berja í brestina og sækja svo fram af fullu afli í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða. Með öðrum orðum að viðurkenna tapið og vinna út frá því. Það gerði Halldór Ásgrímsson, einn flokksleiðtoganna, í fyrri nótt þegar hann aðspurður sagðist taka á sig ábyrgð á útkomu flokksins á landsvísu. Hann sagðist líka hafa orðið var við það á ferðum sínum um landið í kosningabaráttunni að óróleika og óánægju gætti meðal flokksfólksins. Almennt hefur baráttan í Reykjavík smitandi áhrif á kosningabaráttuna annars staðar á landinu enda kastljósi fjölmiðlanna einkum beint að flokkunum þar og einstaklingunum sem í hlut eiga. Fyrir okkur framsóknarmenn var þar á brattann að sækja, en þrátt fyrir erfiða stöðu tókst ungum leiðtoga og liði hans að snúa erfiðu tafli sér í hag og ná inn í höfuðborginni með 6,3% fylgi. Þar verður áfram mikið verk að vinna. Ég eftirlæt forystumönnum míns flokks að túlka niðurstöður flokksins í smáatriðum, en ég var ánægð með að heyra það sem ég raunar vissi af reynslunni, að Halldór Ásgrímsson vék sér ekki undan ábyrgðinni. Hann var hins vegar einn um það. Sjálfstæðisflokkurinn náði ekki takmarki sínu í Reykjavík þótt hann kópíeraði R-lista málin eitt af öðru, en sú útkoma á sér engan ábyrgðarmann heyrist mér. Nafna mín Sólrún Gísladóttir virtist mér heldur enga ábyrgð bera á brostnum vonum flokksmanna Samfylkingar þegar ég hlustaði á hana í gærkvöldi. En hvað skýrir úrslit kosninganna? Er það ekki áhugaverðast? Mér finnst eins og kjósendur séu að segja stjórnmálamönnum að þeim verði kastað út í ystu myrkur í alþingiskosningum ef þeir gleyma í umræðunni að ræða þau málefni sem samfélagið er viðkvæmast fyrir. Það vantar eitthvað í þennan mannlega þátt þegar hraðinn og græðgin fer svo hratt vaxandi. Eðli málsins samkvæmt bitnar pólitísk vinstri hreyfing meðal kjósenda á þeim flokki sem er á miðjunni og sækir fylgi sitt til beggja átta. Það skýrir útkomu Framsóknarflokksins í kosningunum nú að mínu áliti. Félagslegar áherslur Margrétar Sverrisdóttur eiga vafalaust stóran þátt í útkomu Frjálslynda flokksins. Ósk kjósenda um ríkari samfélagslega ábyrgð skýrir að mínum dómi líka útkomu Samfylkingarinnar um landið. Samfylkingin sótti sér nýja forystu í fyrra, hægri sinnaðan varaformann og formann sem ekki hefur getað fótað sig á landsmálasvellinu og hefur átt mjög erfitt með að svara gagnrýni VG á Samfylkinguna frá vinstri. Afskipti formannsins af prófkjörsbaráttu SF í Reykjavík hafa hér sömuleiðis einhver áhrif réttt eins og sölumenn Dags B. Eggertssonar. Hjá sjálfstæðismönnum gerðist í raun ekkert nýtt. Þeir stóðu í stað þegar á heildina er litið. Það er margt sem við framsóknarmenn í öllum kjördæmum þurfum að hafa í huga þegar við förum vandlega yfir þá flóknu stöðu sem upp er komin. Hún skýrist ekki af framgöngu eins manns eða tveggja - hún skýrist af óskum kjósenda. Verkefnið er að greina þær óskir rétt. Stjórnmál snúast um þolinmæði, klókindi og traust. Nú reynir á að menn standi saman og tapi sér ekki þrátt fyrir tap. Þannig er það bæði í boltanum og í baráttunni um að þjóna kjósendum. Allir þurfa að axla sameiginlega ábyrgð, það dugar skammt að benda eingöngu á þjálfarann eða einstaka leikmenn. Sameiginlegt átak þarf til að ná árangri. Þessi vísindi eru ekki flóknari en svo. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ingibjörg Pálmadóttir Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Um síðustu helgi töpuðu mínir menn fyrir KR 2 - 0, svo lágum við fyrir FH, og á laugardaginn tapaði svo flokkurinn minn sveitarstjórnarkosningunum, og nú ríður á að vinir mínir og félagar í Framsóknarflokknum tapi sér ekki. Nú eigum við að ræða málin í okkar hóp og takast á inn á við og ekki skemmta andstæðingum okkar með ótímabærum yfirlýsingum, eða með því að vera nafnlausir heimildamenn ákveðinna fréttamanna sem hafa gaman af að flytja tortímingarfréttir af Framsóknarflokknum. Nú þurfum við að berja í brestina og sækja svo fram af fullu afli í næstu kosningum, hvenær svo sem þær verða. Með öðrum orðum að viðurkenna tapið og vinna út frá því. Það gerði Halldór Ásgrímsson, einn flokksleiðtoganna, í fyrri nótt þegar hann aðspurður sagðist taka á sig ábyrgð á útkomu flokksins á landsvísu. Hann sagðist líka hafa orðið var við það á ferðum sínum um landið í kosningabaráttunni að óróleika og óánægju gætti meðal flokksfólksins. Almennt hefur baráttan í Reykjavík smitandi áhrif á kosningabaráttuna annars staðar á landinu enda kastljósi fjölmiðlanna einkum beint að flokkunum þar og einstaklingunum sem í hlut eiga. Fyrir okkur framsóknarmenn var þar á brattann að sækja, en þrátt fyrir erfiða stöðu tókst ungum leiðtoga og liði hans að snúa erfiðu tafli sér í hag og ná inn í höfuðborginni með 6,3% fylgi. Þar verður áfram mikið verk að vinna. Ég eftirlæt forystumönnum míns flokks að túlka niðurstöður flokksins í smáatriðum, en ég var ánægð með að heyra það sem ég raunar vissi af reynslunni, að Halldór Ásgrímsson vék sér ekki undan ábyrgðinni. Hann var hins vegar einn um það. Sjálfstæðisflokkurinn náði ekki takmarki sínu í Reykjavík þótt hann kópíeraði R-lista málin eitt af öðru, en sú útkoma á sér engan ábyrgðarmann heyrist mér. Nafna mín Sólrún Gísladóttir virtist mér heldur enga ábyrgð bera á brostnum vonum flokksmanna Samfylkingar þegar ég hlustaði á hana í gærkvöldi. En hvað skýrir úrslit kosninganna? Er það ekki áhugaverðast? Mér finnst eins og kjósendur séu að segja stjórnmálamönnum að þeim verði kastað út í ystu myrkur í alþingiskosningum ef þeir gleyma í umræðunni að ræða þau málefni sem samfélagið er viðkvæmast fyrir. Það vantar eitthvað í þennan mannlega þátt þegar hraðinn og græðgin fer svo hratt vaxandi. Eðli málsins samkvæmt bitnar pólitísk vinstri hreyfing meðal kjósenda á þeim flokki sem er á miðjunni og sækir fylgi sitt til beggja átta. Það skýrir útkomu Framsóknarflokksins í kosningunum nú að mínu áliti. Félagslegar áherslur Margrétar Sverrisdóttur eiga vafalaust stóran þátt í útkomu Frjálslynda flokksins. Ósk kjósenda um ríkari samfélagslega ábyrgð skýrir að mínum dómi líka útkomu Samfylkingarinnar um landið. Samfylkingin sótti sér nýja forystu í fyrra, hægri sinnaðan varaformann og formann sem ekki hefur getað fótað sig á landsmálasvellinu og hefur átt mjög erfitt með að svara gagnrýni VG á Samfylkinguna frá vinstri. Afskipti formannsins af prófkjörsbaráttu SF í Reykjavík hafa hér sömuleiðis einhver áhrif réttt eins og sölumenn Dags B. Eggertssonar. Hjá sjálfstæðismönnum gerðist í raun ekkert nýtt. Þeir stóðu í stað þegar á heildina er litið. Það er margt sem við framsóknarmenn í öllum kjördæmum þurfum að hafa í huga þegar við förum vandlega yfir þá flóknu stöðu sem upp er komin. Hún skýrist ekki af framgöngu eins manns eða tveggja - hún skýrist af óskum kjósenda. Verkefnið er að greina þær óskir rétt. Stjórnmál snúast um þolinmæði, klókindi og traust. Nú reynir á að menn standi saman og tapi sér ekki þrátt fyrir tap. Þannig er það bæði í boltanum og í baráttunni um að þjóna kjósendum. Allir þurfa að axla sameiginlega ábyrgð, það dugar skammt að benda eingöngu á þjálfarann eða einstaka leikmenn. Sameiginlegt átak þarf til að ná árangri. Þessi vísindi eru ekki flóknari en svo.