Viðskipti innlent

Útflutningshandbókin fer yfir til Heims

Útflutningshandbókin Iceland Export Directory verður eftirleiðis gefin út af Útgáfufélaginu Heimi sem meðal annars gefur út tímaritið Frjálsa verslun. Handbókin hefur verið gefin út frá árinu 1992 í samvinnu Útflutningsráðs og íslenskra fyrirtækja.

Í bókinni er að finna ítarlegar upplýsingar um helstu útflutningsfyrirtæki landsins, bæði á vöru og þjónustu, en upplýsingar er jafnframt að finna á vefnum icelandexport.com. Vefurinn er helsta upplýsingaveita fyrir útlendinga sem vilja komast í samband við íslensk fyrirtæki en bókin er einnig sögð gegna mikilvægu hlutverki, enda send á mörg þúsund aðila erlendis, auk þess að vera dreift á vörusýningum.

Fram til þessa hefur Ec Web ehf. sem gefur út handbókina Íslensk fyrirtæki séð um útgáfu útflutningshandbókarinnar. Benedikt Jóhannesson, framkvæmdastjóri Heims, segir nýja verkefnið styrkja fyrirtækið, en Heimur hefur einbeitt sér að útgáfu rita um viðskipti eins og Frjálri verslun og Vísbendingu, auk rita fyrir ferðamenn, bæði tímaritum og árbókum.

Iceland Export Directory er sögð mikilvæg viðbót við upplýsingar sem fram koma á vefnum www.icelandreview.com, en þar eru bæði fréttir og upplýsingar um land og þjóð. Fram að þessu hafa upplýsingarnar einkum snúið að ferðamönnum, en nú bætist við upplýsingaveita um fyrirtækin, því vefirnir verða sameinaðir. Við höfum líka góða reynslu af samvinnu við Útflutningsráð, en við sjáum um útgáfu blaðsins Issues and Images fyrir ráðið. Þannig að þetta er á allan hátt eins og best verður á kosið, segir Benedikt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×