Viðskipti innlent

Atvinnuleysi óbreytt

Við vinnu. Minna atvinnuleysi mældist í júní en á sama tíma í fyrra. Lausum störfum hefur hins vegar fækkað talsvert milli ára.
Við vinnu. Minna atvinnuleysi mældist í júní en á sama tíma í fyrra. Lausum störfum hefur hins vegar fækkað talsvert milli ára.

1,3 prósent atvinnuleysi mældist á Íslandi í júní samkvæmt mánaðarskýrslu Vinnumálastofnunar. Um tvö þúsund manns voru að meðaltali á atvinnuleysisskrá í júní og er það svipað atvinnuleysi og verið hefur undanfarna þrjá mánuði.

Atvinnuleysishlutfallið er talsvert lægra en á sama tíma í fyrra þegar það mældist um tvö prósent. Hins vegar hefur lausum störfum fækkað talsvert milli ára. Í júnímánuði í fyrra voru 1700 laus störf hjá vinnumiðlunum en nú eru þau rúmlega fimm hundruð. Töluverður hluti þessara starfa hefur verið mannaður af erlendu vinnuafli. Fækkun starfa milli ára er mest á Austurlandi.

Í Morgunkornum greiningardeildar Glitnis kemur fram að búist sé við litlu atvinnuleysi út þetta ár. Hins vegar megi búast við auknu atvinnuleysi á næsta ári þegar um hægist í efnahagslífinu. Að öllum líkindum komi áhrif samdráttar í efnahagslífinu síðan að fullu fram í auknu atvinnuleysi árið 2008.

Greiningardeildin telur þó ólíklegt að atvinnuleysi verði verulegt vandamál hér á landi í náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×