Erlent

Rússar ógna samstöðu stórveldanna

Ali Larijani Fulltrúi Írans í kjarnorkuviðræðunum varaði við því á laugardag að stórveldin þrýstu of hart á Íran um að hætta auðgun úrans.
Ali Larijani Fulltrúi Írans í kjarnorkuviðræðunum varaði við því á laugardag að stórveldin þrýstu of hart á Íran um að hætta auðgun úrans.

Andstaða Rússa við orðalag í uppkasti að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um kjarnorkumál Írans ógnar samstöðu stórveldanna sex um hvernig skuli bregðast við mótþróa Írans við að stöðva auðgun úrans. Bandaríkin, Kína, Bretland, Frakkland, Þýskaland og Rússland ákváðu hinn 12. júlí að hefja viðræður á ný um aðgerðir Sameinuðu þjóðanna, í kjölfar þess að Íranar neituðu að svara hvort þeir myndu verða við vilja stórveldanna sex og fá í staðinn ýmis vilyrði.

Leiðtogar Rússlands höfðu áður sagst vera tilbúnir til að beita Íran hörku og því komu sinnaskiptin fulltrúum hinna ríkjanna fimm á óvart. Ali Larijani, sem er í forsvari fyrir Írana í kjarnorkuviðræðunum, sagði í gær að auðgun úrans tilheyrði „óafsalanlegum rétti írönsku þjóðarinnar,“ en Íranar hafa hvorki afþakkað tilboðið né sýnt merki um að það verði gert. Ráðamenn í Teheran segjast munu gefa svar 22. ágúst en Bandaríkjamenn og bandamenn hafa sagt að það sé of seint.

Ósamstaða ríkjanna gæti skaðað tilraunir þeirra við að sannfæra Írana um að komast að samkomulagi um að hætta auðgun úrans. Talið er að Rússar trúi ekki að Íranar muni taka boðinu og vilji þess vegna ekki að ályktunin sé of harðorðuð og leiði til hernaðaraðgerða Sameinuðu þjóðanna ef Íranar fara ekki eftir henni. Bandaríkjamenn segja hins vegar að málamynda­ályktun sem krefjist ekki stöðvunar á auðgun úrans sé merkingarlaus og þrýsta því á Rússa að skipta um skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×