Erlent

Skógareldar æ algengari

Hveitiakur brennur Slökkviliðsmenn börðust í vikunni við bruna á hveitiakri í Montana í Bandaríkjunum.
Hveitiakur brennur Slökkviliðsmenn börðust í vikunni við bruna á hveitiakri í Montana í Bandaríkjunum. MYND/AP

Eftir því sem loftslagið hlýnar verða skógareldar algengari víðs vegar um jörðina. Vísindamenn finna æ fleiri vísbendingar um að fjölgun skógarelda tengist loftslagsbreytingum, eins og lengi hefur verið spáð.

Skógareldum hefur til dæmis fjölgað gríðarlega í Bandaríkjunum á síðustu þremur áratugum, samkvæmt skýrslu sem rannsóknarstofnunin Scripps Institution í Kaliforníu sendi frá sér fyrir skemmstu.

vipaða sögu er að segja frá Kanada, þar sem um 2,6 milljónir hektara eyðileggjast af völdum skógarelda á ári hverju, en fyrir um þrjátíu árum varð að jafnaði um ein milljón hektara á ári skógareldum að bráð.

Hlýnunin er nátengd því að stærra svæði brennur í Kanada, og ég býst við að það sama gildi um heim allan, segir Mike Flannigan, gamalreyndur rannsóknarmaður við skógareftirlitsstofnun Kanada.

Í Síberíu eru skógareldar á þessu ári nú þegar orðnir svo margir að árið telst með þeim allra verstu í sögunni. Þó er þetta ár ekki mikið verra en sex af síðustu átta árum.

Nadezda M. Tchebakova, loftslagsfræðingur við rússneska skógræktarstofnun, segir að á árunum 1980 til 2000 hafi hitinn í suðurhluta Síberíu verið að meðaltali tveimur til fjórum stigum hærri en almennt tíðkaðist fyrir 1960.

Snjórinn byrjar að bráðna mun fyrr á vorin, sagði hún. Úrkoma fer minnkandi. Þessi blanda af hækkandi hita og minnkandi úrkomu ætti að skapa aðstæður fyrir tíðari skógarelda.

Í Rússlandi hafa ellefu milljónir hektara orðið eldi að bráð á þessu ári, en það er álíka stórt svæði og Grikkland.

Í Ástralíu var árið 2005 heitasta ár sögunnar og hið hættulega kjarreldatímabil þar syðra lengist ár frá ári.

Breytingarnar hafa orðið miklu hraðari en upphaflega var spáð fyrir tíu eða fimmtán árum, segir Brian Stocks, vísindamaður í Kanada. Það er eins og fólk sé loksins að byrja að skoða þetta.

Skýrslan frá Scripps-stofnuninni, sem greint er frá í vísindatímaritinu Science, er byggð á ítarlegum gögnum frá 34 árum um skógarelda í vesturhluta Bandaríkjanna. Tíðni eldanna hefur verið mjög breytileg frá ári til árs, en þó má merkja greinilega þróun: Á seinni hluta tímabilsins eru eldarnir að meðaltali fjórum sinnum fleiri en á fyrri hluta tímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×