Viðskipti innlent

Bréf í Atlas hækka

Magnús Þorsteinsson í Avion Group Hlutabréf í Atlas Cold Storage standa nú í 7,60 dölum á hlut í Kauphöllinni í Toronto. Tilboð Avion Group hljóðar upp á sjö kanadadali á hlut.
Magnús Þorsteinsson í Avion Group Hlutabréf í Atlas Cold Storage standa nú í 7,60 dölum á hlut í Kauphöllinni í Toronto. Tilboð Avion Group hljóðar upp á sjö kanadadali á hlut.

Hlutabréf í kanadíska kælifyrirtækinu Atlas Cold Storage hækkuðu um rúm tuttugu prósent í Kauphöllinni í Toronto í kjölfar fregna af væntanlegu yfirtökutilboði Avion Group. Viðskipti með bréf í félaginu námu rúmum sjö milljörðum kanadadala. Tilboðið er gert fyrir hönd Eimskip Atlas Canada, dótturfélags Avion Group.

Bréf í félaginu standa nú í 7,60 kanadadölum á hlut, eða sem nemur tæpum 480 íslenskum krónum. Tilboð Avion hljóðaði upp á sjö dali á hlut og er þá miðað við að markaðsvirði Atlas Cold Storage sé rúmir 37 milljarðar króna.

Eimskip Atlas Canada hafa nú þegar gert hluthafasamkomulag við tvo stóra hluthafa í Atlas Cold Storage sem tryggir þeim um 13,9 prósent hlutafjár í félaginu.

Stjórn Atlas mun koma saman á næstunni og íhuga tilboð Avion Group. Niðurstaðan verður síðan kunngjörð í yfirlýsingu, sagði í tilkynningu frá stjórn Atlas Cold Storage.

Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Avion Group, sagði að tilboðið væri sanngjarnt en það væri hluthafa að meta hvort gengið yrði að því.

Mjög rólegt var yfir bréfum í Avion Group í Kauphöll Íslands á föstudagsmorgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×