Erlent

Íslendingur segir lögreglu í Ísrael hafa misþyrmt sér

Íslenskur ríkisborgari af palestínskum ættum var handtekinn í Jerúsalem fyrir rúmri viku þar sem hann tók þátt í mótmælum við bandarísku ræðismannsskrifstofuna. Maðurinn, Qussay Odeh, segir lögreglumenn hafa barið hann ítrekað ásamt því að hafa notað táragas til að yfirbuga hann. Eftir það hafi hann þurft að sitja í stofufangelsi í fimm daga.

Við vorum milli þrjátíu og fjörutíu manns þarna fyrir utan bandarísku ræðismannsskrifstofuna í Jerúsalem. Þarna voru jafnt útlendingar, Ísraelar og Palestínumenn að mótmæla stríðinu í Líbanon og Palestínu, segir Qussay. Ég var rétt nýkominn á staðinn þegar lögreglusveit kemur og byrjar að lemja fólk og sprauta táragasi. Þeir handtóku mig ásamt fimm öðrum sem voru viðstaddir mótmælin.

Hann segir þeim sem handteknir voru hafa verið haldið í fimm klukkustundir á lögreglustöð áður en þeim var sleppt. Þá hafi fimm daga stofufangelsi tekið við. Ég er aumur í baki, hálsi og höndunum eftir þetta. Þessi mótmæli voru friðsamleg á allan hátt, við stóðum þarna með spjöld að mótmæla stríðinu.

Qussay segist hafa fengið ábendingar frá fólki um að kæra ekki, það hefði ekkert upp á sig. Ég ætlaði að kæra þetta en mér hefur verið bent á að sleppa því vegna þess að það gerist ekki neitt. Ég fór á sjúkrahús daginn eftir og fékk vottorð, en ég er efins um að ég kæri. Ég ætla að minnsta kosti að bíða og sjá hvort lögreglan ætli að gera eitthvað meira úr þessu máli, segir hann.

Ég kom um mánaðamótin til Palestínu til að heimsækja fjölskyldu, vini og ættingja. Þetta kemur ekki til með að stytta heimsóknina, ég læt svona ekkert stöðva mig, segir Qussay, sem hefur verið búsettur á Íslandi í sjö ár og varð nýlega íslenskur ríkisborgari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×