Kólombó Ulf Henricsson, yfirmaður norrænu eftirlitssveitarinnar, SLMM, kallaði í gær alla starfsmenn sína til höfuðborgarinnar Kólombó, þar sem átök í landinu hafi harðnað og sveitinni sé meinaður aðgangur að ýmsum svæðum til að fylgjast með brotum á vopnahléssamkomulaginu.
Þorfinnur Ómarsson, talsmaður eftirlitssveitarinnar, segir að þetta sé í og með gert til að koma þeim skilaboðum til stríðandi fylkinga að SLMM sætti sig ekki við hömlur á ferðafrelsi en sveitin á að hafa algjört ferðafrelsi samkvæmt samningum. „Báðir aðilar hafa ítrekað beðið okkur um að vera hér áfram og með því að draga okkur í hlé um stundarsakir erum við að segja þeim að við munum ekki líða óbreytt ástand,“ sagði Þorfinnur.
Hann tekur fram að ákvörðunin endurspegli áherslu SLMM á öryggi starfsmanna sinna, en eftirlitsstörf munu hefjast á ný þegar öryggi starfsmanna telst tryggt. Tímasetningin hafi einnig verið tilvalin því nú standi fyrir dyrum endurskipulagning sveitarinnar við það að Evrópusambandsþjóðirnar fari heim.
Á sunnudaginn var tamílsk kona sem starfaði fyrir Rauða krossinn í Srí Lanka skotin til bana fyrir utan hús sitt í Vavuniya-héraði í norðurhluta landsins. Konan var 23 ára að aldri og hafði starfað að heilbrigðismálum fyrir hjálparsamtökin í þrjár vikur.