Að minnsta kosti 58 manns fórust þegar tvær járnbrautalestir rákust á í norðurhluta Egyptalands á háannatíma í gærmorgun. Líklegt þykir að tala látinna fari hækkandi, því að á annað hundrað manns slösuðust jafnframt í slysinu, margir lífshættulega.
Slysið varð skammt fyrir utan borgina Qalyoub um klukkan sjö í gærmorgun, þegar vagnar lestarinnar voru fullir af fólki á leið til vinnu sinnar. Að sögn lögreglu er orsök slyssins talin vera sú að annar lestarstjórinn sinnti ekki stöðvunarskyldu.
Töluvert er um alvarleg lestarslys í Egyptalandi.