Viðskipti innlent

Kjalar ehf. og Ker hf. sameinuð

Hjörleifur er nýráðinn forstjóri sameinaðs félags Kers og Kjalar sem kemur til með að starfa undir nafni Kjalar.
Hjörleifur er nýráðinn forstjóri sameinaðs félags Kers og Kjalar sem kemur til með að starfa undir nafni Kjalar.

Unnið er að sameiningu Kers hf. og Kjalars ehf. hf. í eitt fjárfestingarfélag. Í tilkynningu kemur fram að við breytinguna verði Egla hf. dótturfélag í 100 prósenta eigu hins sameinaða félags.

Markmiðið er að efla og hnitmiða starfsemina með áherslu á frekari uppbyggingu utan Íslands en þegar hafa verið stofnuð dótturfyrirtæki í Hollandi og Englandi. Gert er ráð fyrir að hið sameinaða félag taki til starfa í næsta mánuði undir nafni Kjalars. Eignir hins sameinaða félags eru 90 milljarðar króna og eru þær helstu eignarhlutur í Kaupþingi banka hf., í Alfesca hf., í Samskipum hf., í fasteignafélaginu Festingu ehf. og ýmsum öðrum félögum, segir þar jafnframt.

Hjörleifur Jakobsson hefur verið ráðinn forstjóri Kers hf. og verður forstjóri hins sameinaða félags. Hann var áður forstjóri Olíufélagsins ehf. en lét þar af störfum 1. mars síðast liðinn.

Hjörleifur lauk verkfræðiprófi frá Háskóla Íslands árið 1981 og meistaraprófi í vélaverkfræði frá Oklahoma State University 1982.

Guðmundur Hjaltason, forstjóri Kers hf. hefur ákveðið að láta af störfum og hverfa til nýrra verkefna. Hann hefur verið forstjóri félagsins frá árinu 2003 og veitti því forystu á miklum uppgangstímum. Guðmundi eru þökkuð vel unnin störf fyrir félagið og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi, segir í tilkynningu um sameininguna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×