Viðskipti innlent

Verðbólga hefur náð hámarki

Verðbólgan náði hámarki í síðasta mánuði að mati Þóru Helgadóttur, sérfræðings KB banka. Verðbólga mældist 8,6 prósent á ársgrundvelli í ágúst. Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,61 prósent í september og nemur tólf mánaða verðbólga 7,6 prósentum.

KB banki spáði 0,8 prósenta verðbólgu í september og er lækkun tólf mánaða verðbólgu því talsvert meiri en greiningardeild bankans gerði ráð fyrir "Verðbólgan fer líklega aðeins upp aftur og verður milli átta og 8,5 prósent á næsta ársfjórðungi. Á næsta ári lækkar hún síðan nokkuð skarpt," segir Þóra.

Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur Landsbankans, segir niðurstöðuna hagstæða enda hafi krónan styrkst kröftuglega í kjölfarið. Það sé merki um að markaðurinn telji tíðindin jákvæð.

Almennt hefur verið búist við því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um fimmtíu punkta nú á fimmtudag. Björn Rúnar telur ólíklegt að verðbólgutölurnar hafi áhrif á þá ákvörðun. "Þessi verðbólguhjöðnun hlýtur að styrkja Seðlabankann í þeirri trú að hann sé að gera rétt. Ég á ekki von á því að bankinn hætti við að hækka vexti, þótt kannski séu örlítið meiri líkur en áður á að hækkunin verði aðeins um tuttugu og fimm punktar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×