Viðskipti innlent

Finna fyrir erlendum áhuga á Icelandair

Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Þó svo að Icelandair teljist til smærri flugfélaga í Evrópu segir forstjóri fyrirtækisins það hafa forskot á ýmsum sviðum, vöxtur þess hafi verið meiri en annarra og rekstrargrunnur þess sé breiðari.
Jón Karl Ólafsson forstjóri Icelandair Þó svo að Icelandair teljist til smærri flugfélaga í Evrópu segir forstjóri fyrirtækisins það hafa forskot á ýmsum sviðum, vöxtur þess hafi verið meiri en annarra og rekstrargrunnur þess sé breiðari. MYND/Pjetur

Óli Kristján Ármannsson

skrifar

„Við erum mjög ánægð með ganginn í þessu, allur undirbúningur hefur gengið mjög vel og málinu vel tekið þar sem við höfum kynnt það,“ segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair, um yfirstandandi hlutafjárútboð í félaginu sem hófst á mánudag og stendur í viku, lýkur 4. desember næstkomandi. Jón Karl segir tilfinningu manna að mikill áhugi sé á félaginu, en það komi svo í ljós að útboðinu loknu hvernig hafi gengið.

Alls eru í boði 185 milljónir hluta að nafnvirði á genginu 27 krónur á hlut, eða 4.995 milljónir króna að markaðsverði. Starfsmönnum býðst að kaupa bréf fyrir 945 milljónir, almenningi fyrir rúman milljarð, 1.080 milljónir króna, og fagfjárfestum bjóðast bréf fyrir 2.970 milljónir króna.

Jón Karl segir mikil tækifæri bíða félagsins og telur hann alla möguleika á að viðhalda miklum vexti fyrirtækisins undanfarin ár. „Í sjálfu sér bendir ekkert til annars, sérstaklega í ferðaþjónustunni þar sem við reiknum með að halda áfram að fjölga ferðamönnum og vonandi til landsins. Síðan eru náttúrlega tækifæri á leigumarkaði og víðar þar sem við höfum vaxið hratt undanfarið. Við höfum ekki sett fram fram töluleg markmið um vöxt á ári, en fyrtækið leitar náttúrulega allra leiða til að skapa sér ný tækifæri.“

Nýir eigendur Icelandair hafa lýst yfir áhuga á því að félagið haldi áfram á svipaðri braut. Þetta segir Jón Karl mjög mikilvægt fyrir starfsmenn að heyra. „Eigendurnir sjá fyrir sér fyrirtækið sem kjölfestufyrirtækið á Íslandi sem er gríðarlega mikilvægt bæði fyrir efnahagslíf og þjónustu.“ Jón Karl segir því ekki stefnt að stórfelldum breytingum á þessu sviði. „En svo heyrir maður nú líka að menn er opnir fyrir margvíslegum nýjum hugmyndum, þannig að okkur líst vel á samstarf við nýja eigendur.“

Jón Karl segir gaman hafa verið að fara um og kynna tölur um rekstur Icelandair sem hafi skilað ágætisafkomu undanfarin ár. Þá segir hann vart verða við erlendan áhuga á félaginu, en farið hefur verið bæði til Noregs og Svíþjóðar að kynna félagið fyrir fjárfestum. „Almennt hefur maður heyrt að áhugasamir menn séu að velta þessu fyrir sér. Gangi það eftir verður það frábært því ekki hefur verið mikið um erlendar fjárfestingar í frumútboðum hjá okkur, en um þetta er trúlega of snemmt að segja. Við sjáum náttúrlega enga niðurstöðu fyrr en útboðið sjálft rennur út, en við höfum heyrt af áhuga erlendis frá líka.“

Jón Karl segir að þótt Icelandair sé með smærri flugfélögum Evrópu hafi afkoman verið betri en margra annarra. „Félagið hefur verið að skila viðunandi árangri og það er það sem mestu skiptir. Starfsemin hjá okkur er líka dreifðari, við erum með fleiri einingar. Við höfum verið að hasla okkur meiri völl í leigu- og fraktflugi en kannski gengur og gerist og erum í ferðaþjónustu líka þannig að þetta er ekki bara flugfélag sem um ræðir heldur er grunnurinn aðeins breiðari.“ Breiðan grunn segir Jón Karl svo gríðarlega mikilvægan fyrir félagið því hann auðveldi sveiflujöfnun í rekstrinum. „Hér eru bæði árstíðarsveiflur sem mæta þarf og fleira til.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×