Viðskipti innlent

Star Europe í Þýskalandi

Mynd/Valgarður Gíslason
Flugfélagið Star Europe, dótturfélag Avion Group, hefur hafið starfsemi í Þýskalandi. Félagið fékk nýlega útgefið flugrekstrarleyfi frá þýskum flugmálayfirvöldum og tók ferlið aðeins þrjá mánuði. Venjan er að slíkt ferli taki 12 - 18 mánuði. Framkvæmdastjóri Star Europe er Martin Greiffenhagen. Martin er þýskur að uppruna og hefur áratuga reynslu úr flugiðnaði.

Í tilkynningu frá Avion Group kemur fram að Star Europe verður með þrjár Airbus 320 flugvélar í rekstri í sumar og sé áætlað að fjölga vélum umtalsvert á næstu árum. Flogið verður til áfangastaða í Suður- og Austur-Evrópu auk Mið-Austurlanda. Fyrstu flug félagsins verða fyrir þýska flugfélagið Germanwings ásamt flugum fyrir fjölda þýskra ferðaheildsala.

Í sumar verður flogið er frá fjórum stöðum í Þýskalandi: Dusseldorf, Frankfurt, Köln og Stuttgart.

Avion Group áætlar að eyða allt að 10 milljónum evra í að byggja upp starfsemina í Þýskalandi. Gert er ráð fyrir að velta Star Europe verði um 30 milljónir evra á þessu ári, að því er fram kemur í tilkynningunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×