Innlent

Samstaða um forgang vegaframkvæmda á Vestfjörðum

Frá Vestfjörðum
Frá Vestfjörðum MYND/Róbert

Skyndilega virðist orðin samstaða um að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi eigi að hafa forgang. Þetta segir Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi þingmaður Vestfjarðakjördæmis. Formaður Frjálslynda flokksins segist ekki sætta sig við að skorið sé af lagfæringum á aðalflutningaleiðum Vestfjarða.

Ríkisstjórnin tilkynnti í síðustu viku að gripið yrði til víðtækra aðgerða til að draga úr þenslu. Í því felst meðal annars að fresta tímabundið útboðum og upphafi nýrra vegaframkvæmda, þar á meðal á Norðausturlandi og á Vestfjörðum. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra og fyrrverandi þingmaður Vestjarðakjördæmis, var gestur í hádegisviðtali NFS í dag. Þar sagði hann að það hefði verið ósanngjarnt af sinni hálfu ef hann hefði barið í borð og mótmælt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Þó hafi það vissulega verið erfitt að samþykkja hana.

En Einar segir ýmislegt jákvættt hafa komið fram í umræðunni sem spunnist hefur vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Þar á meðal að skyndilega virðist orðin samstaða um að vegaframkvæmdir á Vestfjörðum og Norðausturlandi eigi að hafa forgang. „Það er af sem áður var," sagði Einar.

Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, sem jafnframt er fulltrúi flokksins í samgöngunefnd og þingmaður Vestfjarðarkjördæmis, er síður en svo ánægður með þróun mála. Hann segist ekki sjá, frekar en aðrir Vestfirðingar, hvers vegna Vestfirðingar séu látnir líða fyrir þensluástandið þar sem engin þensluaukandi verkefni séu í gangi í kjördæminu. Guojón segist hreinlega ekki sætta sig við að skorið sé af lagfæringum á aðalflutningaleiðum Vestfjarða.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×