Erlent

Árásir Ísraela á Líbanon færast í aukana

Þorpinu Nabatiyeh í suðurhluta Líbanons í dag
Þorpinu Nabatiyeh í suðurhluta Líbanons í dag MYND/AP

Ísrael héldu í morgun áfram loftárásum á Líbaon, fjórða daginn í röð. Forsætisráðherra Ísraels segir að ekki verði gert hlé á árásunum fyrr en Hizbollah lætur ísraelsku hermennina lausa og hætti að skjóta eldflaugum á Ísrael.

Að minnsta kosti fjórir óbreyttir borgarar hafa fallið í árásum Ísraelsmanna á Líbanon í morgun, fjórða daginn í röð. Þá hafa yfir sextán særst. Skotmörkin eru aðallega brýr og bensínstöðvar í suður- og austurhluta landsins. Árásin kemur í kjölfar yfirlýsingar leiðtoga Hizbollah um að allsherjarstríð milli samtakanna og Ísraelsríkis væri skollið á.

Sayyed Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah ávarpaði landa sína á sjónvarpsstöð Hizbollah í gær og tilkynnti að flugskeyti hefðu hæft ísraelskt herskip úti fyrir ströndum Líbanon. Ísraelsher hefur staðfest þær fréttir og jafnframt sagt að fjögurra hermanna sé saknað eftir árásina.

Ísraelskar herþotur réðust í gærkvöld á fjármálaráðuneyti Palestínumanna í Gazaborg og þá voru einnig gerðar loftárásir á brýr á miðhluta Gazastrandarinnar.

Talið er að yfir 60 Líbanar hafi týnt lífi í átökunum undanfarna fjóra daga en forsætisráðherra Ísrael, Ehud Olmert, hefur sagt að ekki verði gert hlé á árásunum fyrr en Hizbollah lætur ísraelsku hermenninga lausa og hætti að skjóta eldflaugum á Ísrael. Mikill fjöldi erlendra ferðamanna er að reyna að komast frá borginni en ítrekaðar árásir hafa verið gerðar á flugvöllinn í Beirút, höfuðborg Líbanons. Í morgun voru einnig gerðar loftárásir á landamærin milli Líbanon og Sýrlands. Leiðin yfir landamærin til Sýrlands hefur undanfarna daga verið helsta flóttaleiðin vegna árásanna á flugvöllinn. Nú er þeirri leið lokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×