Erlent

100 liðsmenn Hizbollah drepnir í átökunum

Maður gengur framhjá líkkistum í bænum Tyre í Suður-Líbanon í dag.
Maður gengur framhjá líkkistum í bænum Tyre í Suður-Líbanon í dag. MYND/AP

Ísraelskar herþotur létu sprengjum rigna yfir hafnarborgina Tyre í suðurhluta Líbanons í dag, þar sem ættingjar fallinna jörðuðu ástvini í bráðabirgðafjöldagröf. Ísraelar eru að undirbúa allsherjarinnrás inn í Líbanon og hvöttu í dag alla íbúa í suðurhluta landsins til að flýja heimili sín þegar í stað.

Um 2.000 manna friðargæslulið Sameinuðu þjóðanna er ráðþrota en Ísraelsmenn ætla ekki að hætta árásum sínum fyrr en þeir hafa þvingað liðsmenn Hizbollah-skæruliðasamtakanna norður fyrir ána Litani, um 30 kílómetra norður af landamærunum. Ísraelar tilkynntu í dag að nálægt hundrað liðsmenn Hizbollah hafi verið drepnir í átökunum sem hafa nú staðið í tíu daga.

Ísraelskum hersveitum hefur verið fjölgað verulega við landamærin og herinn undirbýr stórtæk áhlaup á vígi Hizbollah. Varnarmálaráðherra Líbanon hefur þegar brugðist við aðgerðum Ísraela og segir að líbanski herinn muni svara árásunum af fullri hörku.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×