Viðskipti innlent

Aldrei meiri vöruskiptahalli

Vörur voru fluttar út fyrir 22,3 milljarða króna í júní en vörur voru fluttar inn fyrir 38,1 milljarð króna. Vöruskipti vöru því óhagstæð um 15,7 milljarða króna og er það mest vöruskiptahalli í einum mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofunnar.

Á sama tíma í fyrra voru vöruskipti óhagstæð um 8,1 milljarð króna á föstu gengi. Á fyrstu sex mánuðum ársins voru vörur fluttar út fyrir 114,3 milljarða krónur en inn fyrir 181,2 milljarða. Halli á vöruskiptum við útlönd var því 66,8 milljarðar. Á sama tíma í fyrra var hallinn 37,4 milljarða krónur á sama gengi.

Verðmæti vöruútflutnings á fyrstu sex mánuðum ársins nam 5,3 milljörðum króna, sem er 4,9 prósentum meira á föstu gengi en á sama tíma í fyrra. Sjávarafurðir voru 55,9 prósent útflutnings en verðmæti þeirra hækkaði um 2,1 prósent á milli ára. Þá var aukning í útflutningi á ferskum fiski og söltum og/eða þurrkuðum fiski. Á móti kom samdráttur í útflutningi fiskimjöls. Útfluttar iðnaðarvörur voru 39,1 prósent alls útflutnings og var verðmæti þeirra 26,4 prósentum hærra en á sama tíma í fyrra, aðallega vegna hækkandi álverðs, að sögn Hagstofunnar.

Verðmæti innflutnings á fyrri hluta ársins nam 34,7 milljörðum króna, sem er 23,7 prósentum hærra á föstu gengi en í fyrra. Mest varð aukningin í innflutningi á fjárfestingarvörum og hrá- og rekstrarvöru. Á móti kom samdráttur í innflutningi flugvéla.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×