Erlent

190 flugskeytum skotið á Norður-Ísrael

Ísraelskar hersveitir réðust um 100 kílómetra inn í Líbanon í dag og tóku þar 5 skæruliða Hizbolla höndum í einu höfuðvígi þeirra. Hizbolla-skæruliðar svöruðu með að skjóta um 190 flugskeytum á Norður-Ísrael í dag.

Hizbollah skæruliðar gerðu linnulausar flugskeytaárásir á landsvæði í Norður-Ísrael í dag. Eitt flugskeytið náði um 70 kílómetra inn í land og tvö þeirra skullu niður í tveimur þorpum Palestínumanna á Vesturbakkanum. Eldar kviknuðu víðsvegar og einn íbúi í Nahariya féll. Að minnsta kosti 19 særðust að sögn lögreglu. Hizbollah skæruliðar berjast nú í návígi við um sex þúsund ísraelska hermenn á fimm vígstöðvum í Suður-Líbanon.

Ísraelskar hersveitir réðust inn í bæinn Baalbek, um 100 kílómetra frá landamærunum og gripu tóku þar fimm menn höndum sem þeir segja liðsmenn Hizbollah. 19 féllu í þeim átökum, þar á meðal almennir borgarar. Talsmaður Hizbollah sagði í sjónvarpsávarpi síðdegis að þeir sem hefðu verið teknir höndum væru allir almennir borgarar. Baalbek er sagt eitt höfuðvígi Hizbollah en þar séu margir helstu leiðtogar samtakanna búsettir.

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, segir að áfram verði barist við Hizbollah-liða þar til öflugt alþjóðleg herlið hefur verið sent til Suður-Líbanon.

Utanríkismálanefnd Alþingis var kölluð saman til fundar í dag að beiðni Steingríms J. Sigfússonar, en vinstri grænir hafa krafist þess að íslensk stjórnvöld beiti sér í meira mæli fyrir lausn á deilunni fyrir botni Miðjarðarhafs og vilja að nefndin geri kröfu um tafarlaust vopnahlé.

Engin niðurstaða fékks á fundinum og nefndin kemur aftur saman og sögn Steingríms gæti svo farið að utanríkisráðherra yrði kallaður fyrir hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×