Aðsókn á hátíðina Eina með öllu er meiri en nokkru sinni fyrr segja forsvarsmenn hátíðarinnar. Ef það reynist rétt hjá þeim að átján þúsund manns séu komnir í bæinn vegna hátíðarinnar eru Akureyringar orðnir að minnihlutahópi í eigin bæ. Akureyringar voru tæplega sautján þúsund talsins 1. desember síðast liðinn samkvæmt tölum frá Hagstofunni.
Þessi mikli mannfjöldi hefur leitt til þess að öll tjaldsvæðin á Akureyri eru orðin full. Það þýðir að þeir sem ekki eru þegar komnir til bæjarins verða að láta sér lynda að gista utanbæjar hafi þeir ekki tryggt sér gistingu í heimahúsum eða hótelum. Næsta tjaldsvæði við Akureyri er í Hrafnagili, um tíu kílómetra fyrir utan bæinn.
Það eru ekki aðeins tjaldstæðin sem eru uppurin heldur er farið að bera á vöruskorti í sumum verslunum.
Mikil ölvun var í bænum og lögregla hafði í nógu að snúast. 18 voru teknir með fíkniefni en allir höfðu að eigin sögn ætlað þau til einkanota. Einhverjir gerðu sér að leik að skemma bíla og skrúfað var frá brunaslöngu í Glerárskóla en ekki er ljóst hve mikið tjón varð af völdum vatnsins. Þá voru þrír fluttir á slysadeild eftir slagsmál.