Erlent

Ekki búist við að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna álykti fyrr en á morgun

Mynd/AP

Þúsund Líbanar og hundrað Ísraelar hafa látið lífið í átökum undanfarinna vikna fyrir botni Miðjarðarhafs, flestir þeirra óbreyttir borgarar. Ekki er búist við að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna geti komið sér saman um ályktun til að binda endi á átökin fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

29 daga hernaður Ísraela gegn skæruliðum Hizbollah hefur lítinn árangur borið. Að minnsta kosti finnst ísraelsku ríkisstjórninni tími til kominn að herða sóknina inn í Líbanon enn frekar. 30.000 manna landherlið fær það verkefni sækja langt norður í Líbanon og er búist við að hernaðurinn muni standa í að minnsta kosti mánuð í viðbót. Það þýðir aðeins eitt, þjáningar óbreyttra borgara munu halda áfram. Yfir hundrað Ísraelar hafa látið lífið frá því átökin hófust en hinum megin landamæranna er mannfallið margfalt meira.

Á meðan þessum hildarleik fer fram gengur öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hægt að koma sér saman um stefnu til að binda enda á þessi hörmulegu átök. Arabaríkin vilja að í ályktun ráðsins verði þess krafist að ísraelskar hersveitir haldi þegar til síns heima um leið og friði hafi verið komið á. Bandaríkjamenn og Frakkar óttast hins vegar að slíkt ákvæði komi í veg fyrir að ályktunin verði samþykkt. Ekki er búist við hún verði borin undir atkvæði fyrr en í fyrsta lagi á morgun.



Nú rétt áðan flutti Hassan Nasrallah, leiðtogi Hizbollah, sjónvarpsávarp þar sem hann kvaðst styðja að líbanskt herlið tæki að sér öryggisgæslu í Suður-Líbanon. Hann lofaði þó áframhaldandi árásum og hvatti araba sérstaklega til að hafa sig frá ísraelsku borginni Haifa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×