Erlent

Koma í veg fyrir að lífum sé bjargað

Yfirmaður Neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna segir Ísrelum og skæruliðum Hizbollah í lófa lagið að aðstoða hjálparsamtök við að koma hjálpargögnum til nauðstaddara í Suður Líbanon. Það geri þeir hins vegar ekki og komi þar með í veg fyrir að lífi fólks verði bjargað

 

Ekkert lát er á loftárásum og bardögum í Suður-Líbanon. Enn rignir flugskeytum á ísraelsk landsvæði. Fjölmargir hafa fallið en þeir sem hafa lifað árásir af liggja særðir á sjúkrahúsum. Ísraelskir hermenn halda sem leið liggur inn í Líbanon og hafa lagt undir þrjú þorp í suðurhluta landsins á tæpum sólahring. Hart er þó enn barist þar. Ísraelsher hefur hent dreifimiðum yfir suður hluta Beirút þar sem íbúar í þremur hverjum þar eru hvattir til að hverfa á braut hið fyrsta. Hizbollah-skæruliðar hafa á sama tíma skotið rúmlega sjötíu flugskeytum á ísraelsk landsvæði það sem af er degi.

Jan Egeland, yfirmaður Neyðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir ástandið í Suður-Líbanon hörumlegt og til skammar. Þar séu sjúrakhús yfirfull og hjálparsamtök eigi í erfiðleikum með að koma helstu nauðsynjum til þeirra sem þar eigi um sárt að binda.

Hann segir Ísraelum og skæruliðum Hizbollah í lófa lagið að hleypa hjálpargögnum þangað sem þeirra sé þörf.

Hermenn og skæruliðar séu einfaldlega að koma í veg fyrir að lífi fólks verði bjargað.

Fulltrúar Matvælahjálpar Sameinuðu þjóðanna taka í sama streng. Birgðir hefðu komið til hafnarborgarinnar Sidon í gær en Ísraelsher hefði ekki veitt leyfi til að flytja þær til Nabatiyeh.

Fulltrúar Lækna án landamæra segja stutt í að sjúkrahús í Suður-Líbanon verði uppiskroppa með mat og lyf.

Öryggisráð ísraelska þingsins samþykkti í gær að heimila Ísraelsher að sækja lengra inn í Líbanon en þær áætlanir verða lagðar á hilluna á meðan deilt er um orðalag ályktunar sem leggja á fyrir Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Líbanar krefjast þess að Ísraelsher hverfi þegar frá Líbanon en óvíst er hvort það fæst í endanlegan texta þeirra ályktunar sem fulltrúar í ráðinu greiða atkvæði um. Einnig er alls ekki ljóst hvenær greidd verða atkvæði um hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×