Erlent

Plánetum sólkerfisins gæti fjölgað úr níu í tólf

Plánetum sólkerfisins fjölgar úr níu í tólf á næstunni ef stjörnufræðingar ákveða að víkka út skilgreininguna á fyrirbærinu á þingi sínu í Prag. Málið er umdeilt þar sem búast má við að fjöldi reikistjarna muni margfaldast í kjölfarið.

Alþjóðasamband stjörnufræðinga situr um þessar mundir á rökstólum í Prag í Tékklandi og ræðir stöðu og horfur í geimnum. Búist er við hörðum átökum á þinginu um grundvallaratriði í greininni, það er að segja hvaða hnettir geta talist til reikisstjarna. Til skamms tíma ríkti eining um að pláneturnar í sólkerfinu okkar væru níu en við rannsóknir á svonefndu Kuipersbelti, sem er á jaðri þess, hafa komið í ljós hnettir á stærð við Plútó sem hafa svipuð einkenni. Plútó er að mörgu leyti frábrugðinn hinum reikisstjörnunum og því væri rökrétt að svipta hann plánetutitli sínum. Allt útlit er hins vegar fyrir að stjörnufræðingarnir leysi vandann á annan hátt. Líklegast er að sátt náist á þinginu um þríþætta skilgreiningu. Undir hana falla þá "klassísku" reikistjörnurnar átta, Plútó og systurstjörnur hennar, Karon og 2003 UB 313, og smástirnið Ceres.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×