Viðskipti innlent

Spá lægri verðbólgu á næsta ári

KB banki.
KB banki.
Greiningardeild KB banka spáir því að vísitala neysluverðs í september hækki um 0,8 prósent og muni 12 mánaða verðbólga því lækka úr 8,6 prósentum í 7,8 prósent.

Í Hálffimmfréttum greiningardeildarinnar segir aðútsölulok muni leggja mest til hækkunar á vísitölunni en lækkun eldsneytisverðs mun vega á móti.

Í spánni er gert ráð fyrir óverulegum hækkunum á fasteignaverði en að á móti komi virðist töluverð hækkun vera á leigumarkaði þar sem eftirspurn hefur verið að aukast.

Þá hefur krónan styrkst um tæp 8 prósent frá því í júnílok sem hefur dregið verulega úr verðbólguþrýstingi, að mati deildarinnar.

Greiningardeildin segir hækkun launakostnaðar að undanförnu hafa leitt til verðskrárhækkana á ýmis konar þjónustu. Eldsneytisverð hafi lækkað í mánuðinum og gerir greiningardeildin ráð fyrir að það muni lækka um 2 prósent milli mánaða og leiða til 0,13 prósenta lækkunar á vísitölunni.

Greiningardeild KB banka telur ennfremur nokkuð líklegt að toppnum af verðbólguskotinu hafi nú þegar verið náð og að verðbólga verði á bilinu 8-9 prósent síðustu þrjá mánuði ársins en fari síðan lækkandi snemma á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×